Of lágt orkuverð.

Greinar

Nýjasti álsamningur íslenzkra stjórnvalda við Alusuisse um orkuverð og önnur mál Ísals er ekki hrifningarefni. Það bezta, sem um hann er hægt að segja, er, að hann er samningur. Sem slíkur bindur hann enda á margra ára deilu og veitir vinnufrið næstu fimm árin.

Hitt jákvæða atriðið í samningnum er, að sættir tókust um þau atriði, sem sett höfðu verið í gerðardóm. Ísal mun greiða ríkissjóði um 100 milljónir króna og viðurkenna þannig óbeint gamlar syndir. Þetta er um þriðjungur af því, sem íslenzk stjórnvöld höfðu krafizt.

Margir hafa gagnrýnt þetta og sagt eðlilegast, að látið yrði í gerðardómi reyna til fulls á hinar íslenzku bakkröfur. Hitt er þó líklegra, að í samstarfi sé betra að ná samkomulagi heldur en að láta sverfa til stáls. Það er lögmál, sem gildir á ótal sviðum.

Svarta og stóra atriðið í þessum nýja samningi er orkuverðið. Niðurstaðan hlýtur að valda verulegum vonbrigðum. Eftir mikið bjartsýnistal hinna íslenzku samningamanna allt þetta ár, bjuggust margir við hærri niðurstöðu en 13-14 eininga orkuverði.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur sagt, að “við höfum ekki efni á að selja raforku mikið undir 17-18 mills”. Og raunar er þegar vitað, að orkuverð frá Blöndu og öðrum nýjum orkuverum verður ekki undir 20 verðeiningum. Þetta stingur í stúf við samninginn.

Að vísu er því haldið fram, að Búrfell sé gamalt orkuver á gömlu kostnaðarverði. En óneitanlega fer að verða eftirsjá í að hafa látið orkuna frá ódýrasta orkuveri landsins í hendur fyrirtæki, sem statt og stöðugt neitar að borga nálægt gangverði fyrir hana.

Í sumar var ánægja íslenzku fulltrúanna svo mikil, eins og hún kom fram í fjölmiðlum, að almennt var búizt við niðurstöðu, sem væri einhvers staðar á milli síðustu kröfu um 17 verðeiningar og síðasta boðs um 15 einingar. Þessar tölur hafa greinilega verið ímyndun ein.

Fjölmiðlar eru auðvitað ábyrgir fyrir flutningi talna á borð við þessar. Hins vegar gáfu raunar viðræður við samningamenn tilefni til að ætla, að ágreiningurinn lægi á þessu 15-17 verðeininga bili. Útkoman er hins vegar í raun ekki nema 13-14 verðeiningar.

Eftir að íslenzkir fulltrúar ríkisvaldsins hafa nokkrum sinnum farið halloka fyrir fulltrúum Alusuisse er ekki nema eðlilegt, að úti í bæ fari að gæta nokkurrar svartsýni um framtíðina. Spurt verður, hvort búast megi við einhverju viti í verðandi álsamningum.

Sérstaklega er er ástæða til að draga í efa, að Alusuisse sé einmitt rétti aðilinn til að semja við um frekari álframleiðslu hér á landi. Er bætandi á þá þjóðarsundrungu, sem þegar hefur hlotist af óbilgirni Svisslendinga í viðskiptum við enn óreynda Íslendinga?

Alvarlegast er, að áldeilan hefur verulega dregið úr áhuga með þjóðinni á stóriðju yfirleitt. Hún er ekki lengur umtalsverður þáttur í framtíðarsýn þjóðarinnar. Það er miður, því að stóriðja er gagnleg, þótt hún sé ekki allra meina bót, frekar en önnur starfsemi.

Af því að sjálft orkuverðið skiptir mestu máli í samningum við nýtt álver, hlýtur hinn nýi samningur að valda vonbrigðum. Búið er að gera hann og við hann verður staðið. En fráleitt er, að hann stuðli að frekari áliðju eða annarri stóriðju hér á landi. Í því máli verður þjóðin áfram sundruð.

Jónas Kristjánsson.

DV