Of langt gengið.

Greinar

Norræn samvinna gengur of langt, þegar félagsmálaráðherra undirritar samkomulag um sameiginlegan vinnumarkað á Norðurlöndum og þegar lagt er fyrir alþingi frumvarp um þátttökurétt norrænna ríkisborgara í byggðakosningum á Íslandi.

Milli Dana, Finna, Norðmanna og Svía er jafnræði að því leyti, að hjá öllum er íbúafjöldinn talinn í nokkrum milljónum. Við slíkar aðstæður geta þjóðir leyft sér að slá dálítið af fullveldi sínu í þágu norrænnar samvinnu.

Fámennt ríki eins og Ísland getur síður leyft sér að hrófla við fullveldi sínu. Enda var það á sínum tíma eitt helzta ágreiningsefnið í fullveldisviðræðunum við Dani, að Íslendingar neituðu algerlega að samþykkja gagnkvæman rétt.

Niðurstaðan þá varð sú, að Íslendingar höfðu sitt fram og veittu Dönum engan rétt umfram aðra útlendinga. Aðfluttir Danir urðu eins og aðrir að bíða eftir íslenzkum ríkisborgararétti til að fá réttindi á borð við heimamenn.

Sama hugsun réði, þegar upp komu hugmyndir um aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Menn sáu strax að 200.000 manna þjóð gat ekki veitt milljónaþjóðum Vestur-Evrópu gagnkvæm, efnahagsleg réttindi, til dæmis í fiskveiðum.

Eins er það nú, að við getum ekki tekið við hundruðum þúsunda atvinnulausra frænda af Norðurlöndum. Til þess höfum við ekki bolmagn, hvorki fjárhagslegt né þjóðernislegt. Við getum ekki tekið þátt í sameiginlegum vinnumarkaði.

Játa verður, að Íslendingar hafa átt greiðan aðgang að norrænum vinnumarkaði. En betra er að fórna slíkum gæðum en að þurfa að sæta gagnkvæmni. Svíar gátu leyft sér að taka 1% Íslendinga í vinnu, en við ráðum ekki við 1% Svía.

Þegar vel áraði í Svíþjóð, en miður hér, fóru yfir 2.000 Íslendingar utan til starfa. Nú þegar illa árar í Svíþjóð, en atvinna er næg hér, getum við ekki tekið við 80.000 Svíum, sem þó er aðeins brot af þeirra atvinnuleysi.

Til hemlunar á þessu er sagt í samningnum um vinnumarkaðinn, að norrænir menn þurfi atvinnuleyfi hér á landi. Verður þá í valdi ráðherra, en ekki laga og stjórnarskrár að gæta fullveldis Íslendinga á þessu sviði.

Þetta kann að vera ódýr leið til að öðlast landsréttindi í öðrum löndum án þess að þurfa að fórna þeim hér. En það er ólykt af henni, eins og svo mörgu, sem stjórnmálamenn okkar gera, þegar þeir reyna að vera sniðugir.

Betra er að ganga hreint til verks og segja við frændur okkar á Norðurlöndum, að við ráðum fámennis vegna hreinlega ekki við ýmsa þá þætti norrænnar samvinnu, sem lengst ganga, því að fullveldi okkar sé viðkvæmara en þeirra.

Hið sama má segja um frumvarpið, að norrænir ríkisborgarar hér á landi geti kosið í byggðakosningum án þess að hafa öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt. Þetta er fráleitt, jafnvel þótt Íslendingar hafi notið slíks réttar ytra.

Nokkur hópur norrænna manna með tímabundna búsetu við fiskvinnslu hér á landi getur ráðið úrslitum í bæjarstjórnarkosningum, ekki sízt þegar búið er að hvetja til aðflutninga með samningi um sameiginlegan vinnumarkað.

Við skulum heldur fórna kosningarétti okkar á Norðurlöndum. Við skulum halda fast í hugsun þeirra, sem sömdu á okkar vegum um fullveldi Íslendinga. Þess vegna ber ríkisstjórn að fella vinnumarkaðinn og alþingi að fella atkvæðisréttinn.

Jónas Kristjánsson

DV