Of mörg þorsktonn

Greinar

Þeir, sem vilja leyfa meiri þorskveiði en Hafrannsóknastofnunin mælir með, beita einkum tveimur röksemdum fyrir máli sínu. Þeir segja, að fiskifræði sé of ung fræðigrein og ónákvæm. Og þeir segja, að þjóðin hafi ekki ráð á að fara eftir tillögum stofnunarinnar.

Í þessum hópi fara fremstir forsætisráðherra, hagsmunagæzlumenn Vestfjarða á Alþingi og í ríkisstjórn, svo og forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem er skipstjóri á Vestfjörðum. Þetta eru landsþekktir ábyrgðarleysingjar, sem taka verður með fullri varúð.

Kenningin um, að fiskifræði sé ung fræðigrein, sem hafi stundum spáð rangt eða ónákvæmt að undanförnu, leiðir ekki til þeirrar niðurstöðu, að óhætt sé að veiða meira en Hafrannsóknastofnunin mælir með. Rökrétta niðurstaðan á að vera þveröfug, að veiða skuli minna.

Ef spár Hafrannsóknastofnunar eru með víðum skekkjumörkum, er rangt að gera ráð fyrir, að skekkjan sé í þá átt, að óhætt sé að veiða meira en hún mælir með. Helmings líkur eru á, að skekkjan sé í hina áttina, að ekki sé óhætt að veiða eins mikið og hún mælir með.

Því meira sem menn gera úr meintri ónákvæmni Hafrannsóknastofnunar, þeim mun fleiri tonn af þorski verða þeir að draga frá niðurstöðu hennar til að vera innan við öryggismörk þess, að stofninn hrynji ekki. Slík öryggismörk eru talin sjálfsögð í rekstrarfræðum.

Síðari röksemdin er ný útgáfa af gamalli óskhyggju formanns Framsóknarflokksins, sem sagðist einu sinni vilja gera greinarmun á því, sem þorskurinn þolir, og því, sem þjóðin þolir. Efnislega var hann að segja, að þjóðin hefði ekki efni á að neita sér um óhóflegan afla.

Þessi röksemd stenzt ekki frekar en hin fyrri. Ef þjóðin telur sig ekki hafa ráð á að fara eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar, mun hún á mjög fáum árum verða að sæta náttúrulegum samdrætti, sem er meiri en sá, sem hún þorði upphaflega ekki að horfast í augu við.

Á íslenzku heitir þetta, að forsætisráðherra og hagsmunagæzlumenn Vestfjarða vilji pissa í skóinn sinn. Þeir vilja draga úr stundarþjáningum með því að skera niður stofninn, sem á að standa undir aflabrögðum næstu ára. Þetta er ekki ábyrg afstaða, hvorki fyrr né nú.

Við vorum árum saman svo lánsöm sem þjóð að hafa sjávarútvegsráðherra, sem neitaði að fara eftir rökleysum á borð við þær, sem forsætisráðherra flaggar um þessar mundir. Halldór Ásgrímsson neitaði alveg að bera ábyrgð á, að þjóðin æti útsæði auðlindarinnar.

Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur fetað slóð fyrirrennara síns. Þorsteinn Pálsson hyggst beita af ábyrgð því valdi, sem hann hefur samkvæmt stjórnarskránni, til að ráða niðurstöðunni, þótt hann vilji fyrst hlusta á aðra, alveg eins og fyrirrennari hans gerði.

Sjávarútvegsráðherra er studdur af heildarsamtökum útgerðar, af því að þar sjá menn, að hagsmunir útgerðarinnar eru ekki bara til eins árs, heldur inn í framtíðina alla. Hann er einnig studdur af fyrirennara sínum og öllum þeim, sem vilja ábyrga meðferð málsins.

Rök hinna ábyrgu hvíla á sömu forsendum og rök hinna ábyrgðarlausu, þótt niðurstaðan sé öfug: Þjóðin hefur ekki efnahagslega ráð á öðru en að fara eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar. Og séu skekkjumörkin víð, þarf að fara niður úr þessum tillögum, en ekki upp.

Vonandi er sjávarútvegsráðherra orðinn svo lífsreyndur, að hann taki minna mark á einnota forsætisráðherra en spakmælinu um orðstírinn, sem aldrei deyr.

Jónas Kristjánsson

DV