Of sveigjanlegir.

Greinar

Ástæða er til að óttast, að íslenzku samningamennirnir verði ekki nógu harðir á fundi Íslands og Alusuisse, sem hefst í London á morgun. Nær hefði verið að senda þangað nokkra laxabændur eða hrossaprangara, sem kunna að semja.

Í samninganefnd okkar eru vinsælir stjórnmálamenn og varfærnir embættismenn. Hvorir tveggja hafa tilhneigingu til að líta of sáttfúst á sjónarmið hins aðilans. En slíkt er eitt hið versta, sem getur komið fyrir samningamenn.

Andspænis Íslendingunum sitja þrautreyndir samningamenn, sem hafa tvisvar áður hlunnfarið okkur. Þeir fara nú á kostum í vörninni, meðan við treystum á vinnuaðferðir, sem við höfðum áður farið flatt á í slíkum samningum.

Okkur gagnar ekki að losna við stífni Hjörleifs, ef við fáum óhóflegan sveigjanleika í staðinn. Okkar menn þurfa að kunna að rata hinn gullna meðalveg, sem felst í að halda kurteislega, en samt grjóthart, á málum.

Við höfum farið illa út úr viðskiptum okkar við Alusuisse. Ef við getum nú ekki samið eins og menn um alþjóðlegt orkuverð, ættum við að strika yfir áldrauminn og stefna að því að losna úr samstarfi við Svisslendingana.

Við fáum nú tæpar 7 verðeiningar, mills, fyrir orkuna, meðan heimsmarkaðsverð nemur 22 einingum, verðið í Bandaríkjunum 22 einingum, í Vestur-Evrópu 21 einingu og meðalverð hjá dótturfyrirtækjum Alusuisse nemur 20 einingum.

Hvergi í heiminum fær Alusuisse jafnlágt orkuverð til dótturfyrirtækis eins og hjá Ísal í Straumsvík. Það er því marklaust bókhaldsatriði fjölþjóðafyrirtækis, þegar sagt er vera tap á rekstri útibúsins á Íslandi.

Einnig er marklaust að segja, að Ísal muni greiða upp orkuverið við Búrfell á svo og svo löngum tíma. Í viðskiptum á að miða við endurnýjunarverð, það er að segja stofnkostnað nýs orkuvers, sem byggt væri á þessu ári.

Þótt allt sé slétt á yfirborðinu í nýjustu viðræðum Svisslendinga og Íslendinga, er óbilgirni hinna fyrrnefndu hin sama og áður. Þeir ætla sér ekki að gefast upp á þjarki, fyrr en þeir hafa kreist úr síðasta dropann.

Þetta eru fagmenn, sem eru beinlínis ráðnir til að halda meðalorkuverði dótturfyrirtækja Alusuisse í 20 verðeiningum, meðan aðrir fjölþjóðahringir á sama sviði borga 22 einingar. Slíkir samningajálkar eru gulls ígildi.

Óstaðfestar fregnir herma, að þeir hafi teygt sig upp í 15 verðeiningar í síðustu viðræðunum í Reykjavík og að íslensku samningamennirnir hafi teygt sig niður í 17 einingar. Þetta er hörmulega slappt, ef rétt er.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sagði í vor, að “við höfum ekki efni á að selja raforku mikið undir 17-18 mills”. Oft hefur verið nefnt, að 18 einingar væru í hæfilegri samkeppnisfjarlægð frá 20-22 eininga heimsmarksverði.

Ef hins vegar samningamenn Íslands stefna að samkomulagi mitt á milli 17 eininga og 15, það er að segja í 16, hafa þeir beðið enn einn ósigurinn fyrir refunum frá Sviss. Og verður eindregið að vara við slíkri niðurstöðu.

Nýlega leigðu nokkrir bændur Svisslendingum tvær laxveiðiár fyrir 900 þúsund króna veiðihús og sem svarar 13 þúsund krónum á laxinn. Væri ekki hægt að fá þá snillinga til að skipta um stóla við samningamenn okkar í London?

Jónas Kristjánsson.

DV