Ofbeldi fylgir trúarofsa

Greinar

Flugræningjarnir, sem undanfarna daga hafa verið að misþyrma farþegum og drepa á vegum guðs síns, segjast stefna að sigri eða píslarvættisdauða fyrir Allah. Þeir eru félagar í vopnuðum ofsatrúarflokki í Líbanon, sem fylgir trúarsjónarmiðum Khómeinis klerks í Persíu.

Múhameðstrúarmenn, einkum af sérgrein sjíta, standa framarlega í trúarofstæki, sem hefur einkennt heimsbyggðina síðustu áratugi. Þeir eru samt ekki einir um hituna. Menn af öllum helztu trúarbrögðum heims standa fyrir hryðjuverkum og styrjöldum í nafni guðs.

Kristnir menn á Norður-Írlandi skipast í ofbeldissveitir eftir sértrúarskoðunum rómversku og skozku kirkjunnar og drepa hver annan úr launsátri. Undir hatrinu kynda klerkar á borð við Ian Paisley, sem þar gegnir eins konar hlutverki Khómeinis í röðum andpápista.

Í þessum heimi trúarofbeldis hefur tiltölulega veraldlegur félagsskapur á borð við Palestínusamtökin PLO ekki vakið athygli fyrir hryðjuverk á síðustu árum. Þau hafa þvert á móti gerzt friðsamari með tímanum og reyna núna jafnvel að hafa vit fyrir flugræningjunum.

Margir þeir, sem vilja ekki, að utanríkisráðherra okkar tali við Arafat eða aðra fulltrúa samtaka Palestínumanna, láta sér í léttu rúmi liggja, að við höfum stjórnmálasamband við afar herskátt ofsatrúarríki, Ísrael, sem er að verða æxli á Miðausturlöndum.

Um langt árabil hafa stjórnendur Ísraels verið gamlir hryðjuverkamenn á borð við Begin og Shamir. Í vetur hafa þeir látið herinn stunda skipuleg hryðjuverk á arabískum unglingum, ákaft hvattir af hálftrylltum klerkum, sem ráða stjórnarmyndunum á þingi Ísraels.

Á sama tíma hafa kristnir Armenar og múhameðskir Azerbadsjar verið að slátra hver öðrum í Kákasusfjöllum Sovétríkjanna. Reynt hefur verið að breiða yfir fréttirnar, en ljóst er, að hin verstu fólskuverk hafa verið unnin í nafni tveggja höfuðtrúarbragða heims.

Í Indlandi ganga hryðjuverkin í þríhyrning. Þar stendur stríðið milli hindúa, múhameðstrúarmanna og sjíka. Í nágrannaríkinu Sri Lanka eru hryðjuverkin enn stórkarlalegri, þar sem eigast við tamílar og sinhalar, það er að segja hindúar og búddistar.

Í Afríkuríkinu Súdan ríkir blóðbað milli kristinna Dinka í suðurhlutanum og múhameðskra valdhafa í norðurhlutanum og höfuðborginni Kartúm. Á Filippseyjum er taflið öfugt. Þar berjast múhameðskir Moros á úteyjum við kristna valdhafa í höfuðborginni Manila.

Trúarbragðasagan er blóði drifin. Þegar frumkristnir menn komust til valda í Rómaveldi, fóru þeir strax að kvelja og myrða heiðið fólk. Síðan skiptust þeir í fylgismenn biskupanna Aríanusar og Aþaníasar, steiktu hver annan á víxl og stunduðu útrýmingarherferðir.

Kunnugt er aldagamalt blóðbað kaþólskra í Róm og orþódoxra í Miklagarði og síðar þrjátíu ára stríð kaþólskra og mótmælendatrúarmanna norðan Alpafjalla, svo og rannsóknarrétturinn á Spáni. Alls staðar voru klerkar í fararbroddi ofstækis, ofbeldis og hryðjuverka.

Hið eina, sem kemst í samjöfnuð við trúarbrögð annars heims í að baka mannkyni þjáningar, eru trúarbrögð þessa heims, svo sem í Sovétríkjum Stalíns og í Kambodsíu Pols Pots. Á síðustu árum hafa slík hryðjuverk þó vikið fyrir hryðjuverkum í nafni annars heims.

Íslenzk kirkja ætti að hvetja kristna klerka um heim allan til að leita samstarfs við klerka annarra trúarbragða um andóf gegn ofbeldishneigðu trúarofstæki.

Jónas Kristjánsson

DV