Ofbeldi í eðlinu.

Greinar

Ofsóknir harðstjórnarinnar í Sovétríkjunum á hendur dauðveikum Sakarof-hjónunum eru eðlilegur þáttur hins ofbeldishneigða stjórnkerfis, sem þar hefur ríkt í rúmlega hálfa öld. Þessar ofsóknir eru ekkert sérstakt tilvik. Hið illa veldi tjáir sig jafnan með slíkum hætti.

Tsjernenko heldur áfram stefnu Andropovs og Brezhnevs við að brjóta á bak aftur sérvitra einstaklinga, ekki sízt ef þeir mynda samtök um að mæla með því, að Sovétríkin fari eftir mannréttindaákvæðum Helsinki-samkomulagsins frá 1975. Sá hópur er nú senn úr sögunni.

Ofbeldi hins illa veldis er hið sama út á við og inn á við. Harðstjórnin í Kreml hefur áratugum saman stefnt að heimsyfirráðum. Í hugmyndafræði ráðamanna Sovétríkjanna er slökun í samskiptum austurs og vesturs ekki annað en hlé á milli skrefa í útþenslunni.

Vaxandi viðgangur friðarhreyfinga á Vesturlöndum hvatti um tíma hið illa veldi til að fara glannalegar í útþenslustefnunni. Tveir vestrænir sjúkdómar, hollenzka veikin og kirkjulega veikin, eru meðal þess, sem mest hefur freistað stjórnar Sovétríkjanna á undanförnum árum.

Ofbeldisliðið er í fýlu um þessar mundir, af því að Vesturlöndum hefur tekizt að hrista af sér mók friðarhreyfinga og eru farin að taka höndum saman um að gæta lífshagsmuna sinna gegn útþenslustefnu hins illa veldis. Danmörk og Holland eru einu veiku hlekkir vestursins.

Fýlan kemur meðal annars fram í, að Sovétríkin hafa horfið frá þáttöku í ólympíuleikunum. Ráðamennirnir eru að hefna fyrir fjarveru Bandaríkjamanna og Breta á síðustu ólympíuleikum, þegar hin svívirðilega styrjöld Sovétríkjanna gegn Afganistan var fólki enn í fersku minni.

Fýlan kemur líka fram í, að Sovétstjórnin hættir að senda aðstoðarforsætisráðherra í sáttaferð til Kína til að hefna fyrir góðar móttökur, sem Reagan Bandaríkjaforseti fékk þar fyrir skömmu. Ofbeldisliðið hagar sér eins og börn, sem fá skyndilega ekki allt, sem þau vilja.

Harðstjórarnir í Kreml neita nú staðfastlega að taka þátt í að koma á viðræðum um bann við efnavopnum og eftirlit með slíku banni. Þeir neita líka að taka á ný þátt í afvopnunarviðræðum af ýmsu tagi, sem þeir hlupu frá í fyrra. Og þeir neita nýjum toppfundi stórveldanna.

Í öryggismálum móður jarðar flaggar hið illa veldi tillögum um marklausar viljayfirlýsingar á borð við loforð um að verða ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum. En það má ekki heyra minnzt á raunhæft eftirlit með því, að staðið sé við áþreifanlegan samdrátt í vígbúnaði.

Enginn vafi er á, að stjórnkerfið í Sovétríkjunum hefur í hálfa öld ræktað ráðamenn, sem hafa klifið valdastigann á tvíþættum hæfileika grimmdar og sleikjuskapar. Stalínisminn var hin mikla þolraun þeirra allra. Þess vegna er Kreml illt veldi, stórhættulegt umhverfi sínu.

Friðardúfur Vesturlanda magna ofbeldishneigð þessara ráðamanna, sem munu halda áfram uppteknum hætti, nema almenningur á Vesturlöndum fylki sér eindregið og um langan aldur að baki þeirri festu, sem felst í stefnu vestrænna leiðtoga á borð við Mitterrand Frakklandsforseta.

Ustinov stríðsráðherra hafði ekki mikið fyrir fjöldamorðinu, þegar hann lét í fyrra skjóta niður farþegaþotu frá Suður-Kóreu. Ofbeldisfélagar hans í Kreml munu ekki heldur hafa mikið fyrir að koma fyrir kattarnef einum nóbelsverðlaunamanni og konu hans. Þetta er í eðlinu.

Jónas Kristjánsson.

DV