Ofbeldishneigð Kínastjórn

Greinar

Ríkisstjórn Kína er til vandræða í alþjóðlegum samskiptum. Hún á í útistöðum við flest nágrannaríkin og lætur ófriðlega á alþjóðlegum siglingaleiðum. Hún stundar heræfingar við landhelgi Taívans og sendir landgöngulið til smáeyja í eigu Víetnams og Filippseyja.

Heræfingarnar undan ströndum Taívans eru beinlínis stundaðar til að reyna að hafa áhrif á úrslit forsetakosninga þar í landi. Hin herskáa ríkisstjórn í Kína minnir um leið á, að hún telji Taívan aðeins vera hérað í Kína og flaggar þannig dulbúinni hótun um innrás.

Ríkisstjórn Kína virðir einskis alþjóðlega samninga og stofnskrár samtaka, sem ríkið á aðild að. Höfundaréttur hugverka og hugbúnaðar er ekki virtur og alls engin gagnrýni er leyfð í landinu. Mannréttindi eru fótum troðin og langt seilzt til þess eins að sýna hörkuna.

Á sama tíma hafa vestrænir ráðamenn verið að nudda sér utan í kínversku dólgana. Í þeim hópi hafa verið forseti og forsætisráðherra Íslands. Forseti Íslands hefur meira að segja orðið sér til skammar með afskiptum af kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína.

Ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar höfðu krafizt þess, að Kínastjórn færi eftir reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur, úr því að hún hafði heimtað að fá að halda hana. Ofanígjöf forseta Íslands var einkar óviðeigandi eins og málum var þá háttað.

Kínverskir ráðamenn eru siðlausir í viðskiptum og samskiptum. Þeir virða ekki leikreglur og gæta aflsmunar. Þeir hafa ginnt erlend fyrirtæki til að fjárfesta í Kína og hafa fyrirtækin síðan í gíslingu til að fá ráðamenn þeirra til að gæta hagsmuna Kínastjórnar í útlöndum.

Ísland hefur blessunarlega engra viðskiptahagsmuna að gæta í Kína. Þar eru engir markaðir, sem skipta okkur nokkru máli. Við höfum miklu meiri viðskiptamöguleika í nágrannalöndum Kína, svo sem í Japan og Suður-Kóreu, en við getum nokkru sinni nýtt okkur til fulls.

Því miður var þó nýlega komið upp íslenzku sendiráði í Kína. Þetta sendiráð ber að leggja niður hið snarasta og verja peningunum í staðinn til að koma upp sendiráði í Japan, þar sem þess er full þörf. Sendiráð í Kína er eins fáránlegt og sendiráð væri á Kúbu eða í Írak.

Við eigum að fara í stóran sveig umhverfis Kína. Viðskipti og önnur samskipti við Kína geta aðeins orðið okkur til vandræða, meðan yfirgangssemi og ofbeldishneigð ráðamanna þar í landi er slík, sem dæmin sanna. Við eigum í staðinn að beina athyglinni að Japan.

Íslenzkir ráðamenn eru ekki einir um að hafa misstigið sig í samskiptum við Kínastjórn. Bandaríkjastjórn hefur hvað eftir annað orðið fyrir hremmingum við að reyna að hafa góð áhrif á ráðamenn í Kína. Hún hefur meðal annars veitt Kína allt of góð viðskiptakjör.

Það var misráðið af Bandaríkjastjórn að fylgja ráðum hins ofmetna Kissingers, fyrrum utanríkisráðherra, og þjónusta ríkisstjórn, sem er eindregið andvíg flestum grundvallaratriðum í bandarísku þjóðskipulagi og reynir um allan heim að grafa undan bandarískum áhrifum.

Við sjáum þessa dagana, að tilraunir vestrænna ráðamanna til að spekja kínverska ráðamenn hafa engan árangur borið. Ofbeldisheigð alræðiskerfisins er hin sama og við sáum áður hjá Hitler og Stalín. Áráttan leitar útrásar í samskiptum Kína við umheiminn.

Því meiri festu, sem Bandaríkin og önnur vestræn ríki sýna í samskiptum við Kínastjórn, þeim mun meiri líkur eru á, að hún hætti að færa sig upp á skaftið.

Jónas Kristjánsson

DV