***
Skólabrú hefur alltaf verið kjörinn staður fyrir veitingar, gamalt góðborgarahús í hjarta borgarinnar, minnir á ýmsa toppstaði í nágrannalöndunum. Samt hefur einn aðilinn tekið við af öðrum í brösóttum rekstri án þess að tekizt hafi að festa hann í sessi sem veitingahús í hjarta borgaranna sjálfra.
Núverandi úthald er búið að vera hálft ár. Breytingar eru að öðru leyti litlar, verðlagið með því hæsta, sem þekkist hér á landi, 7300 krónur þríréttað. Skipt hefur verið um málverk yfir í matarmyndir Þorra Hringssonar. Matseðillinn er ekki prófarkalesinn og er skrifaður á margtyngdu og torræðu orðalagi Hótel- og veitingaskólans. Þjónusta er skólagengin og fín, valdi okkur gott Chardonnay frá Kaliforníu.
Matreiðslan er nýklassísk eins og á öllum stöðum í efsta kanti verðlags. Hún er tiltölulega vönduð, en skortir réttar tímasetningar í eldun á fiski og verndun fiskbragðsins, hvort tveggja eins og raunar líðst því miður í nýklassískum húsum, þar sem meiri áherzla er lögð á útlit rétta en bragðið af lykilhráefnum þeirra.
Andalifrarkæfa var borin fram með tómatsultu ofan á og grænmetisfroðu efst og gaf milt lifrarbragð. Humarhalar með andalifrarpylsu voru góðir, en aðeins fjórir, með miklu meðlæti í kring, skelfisksósu, vínberjasalati og grískri stökkbrauðsplötu.
Ágætur matur og enn meira listaverk var upprúllaður saltfiskur í smjördeigsbrauði og rifinn saltfiskur ofan á tómatblönduðum grænmetisteningum og undir einum humri.
Góðfiskurinn þykkvalúra með grænmetisfroðu og blöndu af kartöflum og lauk í sultu var ekki merkilegur matur. Þetta voru rosalítil og ræfilsleg fiskflök, of mikið elduð, án hins eftirsótta þykkvalúrubragðs.
Heldur betri, en samt of mikið eldaður var annar góðfiskur, sandhverfa með hörpuskelfiski, ljósri hveitisósu Hollandaise og krókettu-formi með mozzarella-osti. Eins og hjá öðrum nýklassískum veitingahúsum má setja spurningu við fiskinn.
Vel heit súkkulaðifroða, ekta soufflé, með armagnaki og sveskjuís var góður eftirréttur, enda farið sparlega með armagnakið. Hindberjabaka með ávaxtasalati og súkkulaðifroðu var líka góður eftirréttur, en stökk kaka á botninum var óþörf.
Espresso-kaffi var lítils virði, ekki úr réttum baunum.
Jónas Kristjánsson
DV