VEGGJAKROT hefur farið út í öfgar að undanförnu. Sprautað hefur verið á umferðarskilti og spillt ýmsum öðrum texta á almannafæri, sem er til að þjóna fólki. Með því er graffiti komið langt frá hugmyndum sumra, að það sé list, veggjalist.
LÖGREGLAN og þjóðfélagið í heild hefur hingað til tekið milt á veggjakroti. Það breytist fljótt, þegar krotið fer út í öfgar. Hugmyndir vakna þá um, að fylgja fast eftir gildandi banni við veggjakroti og draga krotara til peningaábyrgðar.
EKKI ER SANNGJARNT að draga alla krotara undir sama hatt. En þeir verða að gera sér grein fyrir, að iðja þeirra er á viðkvæmu sviði, klárlega bönnuð lögum samkvæmt. Þeir geta þá aðeins þrifizt, að þjóðfélagið geri ekki uppreisn gegn þeim.
LJÓST ER að graffiti veldur miklum kostnaði hjá eigendum mannvirkja, til dæmis hjá Vegagerðinni og Strætó, sem eru að reyna að þjóna almenningi. Árlega fara tugir milljóna í að hreinsa veggjakrot. Sanngjarnt er, að krotarar borgi þetta.
Í NEW YORK var um skeið rekin svokölluð “zero tolerance” stefna, sem fól í sér, að tekið var hart á svokölluðum smáglæpum á þeirri forsendu, að stórglæpir mundu þá síður vera framdir. Þetta reyndist vera rétt, stórglæpir minnkuðu.
FLESTUM ER ljóst, að útkrotuð borg líkist samfelldu Harlem, fátækrahverfi, þar sem fíkniefnasalar og annar lýður undirheimanna fara sínu fram. Með því að hreinsa krotið daglega verjast þeir, sem standa undir reisn þjóðfélagsins.
TÍMI ER KOMINN til að elta krotara uppi og taka hart á þeim. Þeir hafa farið langt út fyrir eðlileg mörk, þegar þeir eru farnir að ráðast á skilti til upplýsingar fyrir almenning. Þeir skilja ekki stöðuna, fyrr en reikningurinn kemur.
DV