Ófriður á elliheimilinu

Greinar

Framvinda samfylkingar jafnaðarmanna hefur verið eins og nokkrum sinnum hefur verið spáð í leiðurum þessa blaðs. Söguleg sátt er að verða um krataflokk með Margréti Frímannsdóttur og Svavari Gestssyni á tindinum, um eins konar öfugan Héðin Valdimarsson.

Vegna þurrðar á þingsætum getur samfylkingin ekki staðið við heiðursmannasamkomulag við Kvennalistann og er að ýta honum út úr samfylkingunni, enda á sá flokkur lítið erindi inn í sögulega sátt tveggja elliflokka, sem báðir kenna sig við alþýðu gamla tímans.

Samfylkingin hefur þegar misst frá sér róttæklinga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem vafalaust fylkja sér um Ögmund Jónasson, og róttæklinga náttúrufriðunar, sem vafalaust verða samferðamenn Hjörleifs Guttormssonar. Og Möðruvellingarnir fara heim.

Alþýðubandalagið er raunar orðið að rúst. Margrét og Svavar flytja fátt annað með sér í búið en hina sögulegu sátt eina saman. Fyrir opnum tjöldum eru vaðmáls-sósíalistar og fífilbrekku-sósíalistar farnir annað, svo og semínaristar, kvótagreifar og Möðruvellingar.

Einnig hefur kvarnast úr Alþýðuflokknum, þótt hljóðar hafi farið. Ljóst er af skoðanakönnunum, að Sjálfstæðisflokkurinn dregur um þessar mundir til sín allt það fylgi, sem hingað til hefur rambað eftir aðstæðum og pólitísku veðurfari milli hans og Alþýðuflokksins.

Eftir situr mild og öldruð samfylking bæjarradikala og hófsamra verkalýðsleiðtoga, sem sker sig frá öðrum flokkum fyrir að hafa nánast ekkert fylgi meðal yngstu kjósendanna, 18­24 ára. Það er skelfilegt veganesti nýs flokks að höfða alls ekkert til nýrra kjósenda.

Í síðustu kosningum höfðu samfylkingarflokkarnir samanlagt fylgi um þriðjungs allra kjósenda. Nú er fylgið komið niður í fimmtung á landsvísu, eins og hjá Framsóknarflokknum einum. Þessu er hægt að lýsa þannig, að kjósendur hafi gefið samfylkingunni langt nef.

Samfylking jafnaðarmanna hefur aðgang að glæsilegum málefnum, verndun ósnortinna víðerna, endurheimt kvótans úr höndum sægreifa, afnám sérleyfa og einkaleyfa handa gæludýrum stjórnarflokkanna. Enginn flokkur veður í betri málefnum en samfylkingin.

Þetta nýtist henni ekki, sennilega af því að þátttakendur í skoðanakönnunum og væntanlega einnig kjósendur fara ekki mikið eftir málefnum, heldur meira eftir mönnum. Fólk forðast stjórnmálamenn, sem hafa ekki einu sinni burði til að koma sér saman um framboð.

Það er ekki nóg af hafa málefni, ef leiðtogaefnin eru svo heillum horfin, að þau standa í langvinnum og ótraustvekjandi illdeilum um skipun framboðslista. Þau hafa gert sig ber að því að vera hræðslubandalag nokkurra þingmanna, sem eru að verja atvinnu sína.

Því getur farið svo, að flokkarnir, sem standa að nauðgun náttúrunnar, framsali gjafakvótans í hendur sægreifa, veitingu sérleyfa og einkaleyfa í þágu gæludýra sinna, muni fara með svo mikinn sigur af hólmi í vor, að þeir geti farið að krukka í stjórnarskrána.

Ef til vill kemur síðar eitthvað gott úr samfylkingunni annað en söguleg sátt á elliheimili stjórnmálanna. Áfallið í þingkosningunum í vor kann að leiða til, að spilin verði stokkuð að nýju í von um betri mannspil. Sáttin getur orðið sterkara afl í kosningum ársins 2003.

En það er tímaskekkja að vera að hreinsa upp gamalt ósætti þreyttra stjórnmálaflokka, þegar stjórnmálin snúast um, hvernig við eigum að feta inn í nýja öld.

Jónas Kristjánsson

DV