Ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka kostnað heimilanna í landinu með því að selja landbúnaðarráðherra sjálfdæmi um að leggja 200% gjald á innfluttar búvörur, ef þær eru ódýrari en innlendar. Hún hefur lagt fram lagafrumvarp um þessa atlögu að hagsmunum neytenda.
Landbúnaðarflokkarnir, sem stjórna þjóðfélaginu, verja þessa árás með því að segja innflutta búvöru vera í ýmsum tilvikum greidda niður af erlendum stjórnvöldum og raska samkeppnisaðstöðu íslenzkra bænda. Þessi gamalkunna fullyrðing er afar villandi.
Í öllum framleiðslugreinum eru einhvers staðar til í heiminum aðilar með svo hagkvæman rekstur, að þeir geta boðið lágt verð. Í öðrum löndum kveina framleiðendur og heimta opinberan stuðning til að standast samkeppnina, þrátt fyrir sinn eigin óhagkvæma rekstur.
Í búvöru ráða Bandaríkin og ýmis önnur hagkvæmnisríki hinu lága verði, sem er á heimsmarkaði. Þar greiða stjórnvöld ekki niður útflutning, allra sízt á kartöfluflögum, þótt ríkisstjórnin hér virðist halda slíku fram. Þess vegna er heimsmarkaðsverðið rétt verð.
Í öðrum löndum kveina síðan óhagkvæmir framleiðendur og heimta opinberan stuðning. Þannig urðu til útflutningsuppbæturnar í Efnahagsbandalaginu. Markmið þeirra er að vernda eigin landbúnað gegn arðbærum landbúnaði, sem ekki þarf á stuðningi að halda.
Í hvert skipti sem stjórnvöld ákveða að grípa til stuðnings við óarðbæra framleiðslu á heimamarkaði, eru þau að styðja hagsmuni framleiðenda á kostnað hagsmuna hinna, sem nota vöruna. Neytendum er meinað að njóta hins lága og rétta heimsmarkaðsverðs.
Í hvert skipti sem stjórnvöld ákveða að grípa til stuðnings við óarðbæra framleiðslu í útflutningi eru þau að styðja hagsmuni erlendra neytenda á kostnað innlendra skattgreiðenda. Gott er, ef erlend stjórnvöld vilja lækka á þann hátt kostnað íslenzkra neytenda.
Framfarir í erlendum landbúnaði eru slíkar, að fyrirsjáanlegt er gífurlegt og varanlegt offramboð á heims markaði. Þeir, sem eru kaupendur á þeim markaði, njóta hins lága verðs, eflds kaupmáttar og rýrnandi verðbólgu, nema stjórnvöld reyni að spilla þessum hagnaði.
Að sjálfsögðu lýsir það hreinni fyrirlitningu á hagsmunum neytenda, þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, við fögnuð Alþýðubandalagsins, selja landbúnaðarráðherra sjálfdæmi um að leggja 200% toll á hvaða innflutta búvöru, sem honum sýnist.
Þegar þröngir hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi, eru þessir stjórnmálaflokkar fljótir að gleyma forsendum nýgerðra kjarasamninga, baráttunni við verðbólgu og umræðunni um fátækt í landinu. Í þessu máli sýna þeir eins og fyrr, hvar hjarta þeirra slær, í fortíðinni.
Árás frumvarps þríflokkanna á neytendur kemur að sjálfsögðu harðast niður á þeim, sem minnsta mega sín. Fátækasti hluti þjóðarinnar finnur mest fyrir tilraunum meirihluta Alþingis til að halda uppi óeðlilega háu verði á matvælum í landinu.
Frumvarpið er ekki orðið að lögum enn. Komið hefur í ljós, að innan Sjálfstæðisflokksins eru sumir ekki hrifnir af framgöngu ráðherra sinna í máli þessu. Þeir eiga erfitt uppdráttar, því að sjálfur flokksformaðurinn er umboðsmaður annars kartöfluflögu-kjördæmisins.
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa magnaða óþurftarmáls á Alþingi á næstu dögum. Almenningur getur orðið ýmiss vísari um stjórnmálin.
Jónas Kristjánsson
DV