Ofstæki í byggðastefnu

Greinar

Mikill mannauður glataðist, þegar Landmælingar Íslands voru fluttar með handafli ráðherra upp á Akranes. Beztu starfsmennirnir vildu ekki láta flytja sig, þótt fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu sé með minnsta móti. Sumir þeirra tóku upp samkeppni við stofnunina.

Afleiðingin varð sú, að Mál og menning fór að framleiða aðgengilegri og vinsælli kort en Landmælingarnar. Þar á ofan naut Mál og menning þess að vera nær erlendum ferðamönnum og meginhluta íslenzka markaðarins. Tekjur Landmælinganna snarminnkuðu við flutninginn.

Þegar opinberar stofnanir eru fluttar út á land, er ekki tekið tillit til þessara tveggja atriða, annars vegar mannauðsins, sem fórnað er við flutninginn, og hins vegar aukinnar fjarlægðar frá meginhluta markaðarins. Brýnir hagsmunir eru látnir víkja fyrir byggðastefnu.

Á svipaðan hátt var dregið úr áhrifamætti Ferðamálaráðs með því að flytja höfuðstöðvar þess til Akureyrar. Erlendir ferðamenn eru fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Þar eykst straumur þeirra einnig mest og einungis þar er skortur á gistirými.

Nú er verið að flytja Byggðastofnun til Sauðárkróks. Fórnað er öllum mannauði stofnunarinnar nema einum manni og spillt er aðgengi mikils meirihluta viðskiptamanna stofnunarinnar. Eini kosturinn er sá, að stofnunin er verr í stakk búin til að reka byggðastefnu.

Áður hafði Húsnæðismálastofnun verið breytt í Íbúðalánasjóð, sem settur var niður á Sauðárkróki, langt frá þungamiðju tölvuþjónustunnar í landinu. Tölvukerfið hrundi og sækja varð alla tækniþjónustu suður. Mánuðum saman urðu miklar tafir við afgreiðslu mála.

Nú hafa helztu ofstækismenn byggðastefnunnar, þingmenn Bolungarvíkur, ákveðið að flytja hluta af bankaþjónustu Byggðastofnunar án útboðs til Bolungarvíkur. Það er minna skemmdarverk en þau, sem hér hafa verið rakin að ofan, en sýnir vel hagsmunapotið.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa að fara að átta sig á aðstæðum. Verið er að spilla atvinnu margra samborgara og engin veit hvar öxin lendir næst. Um leið er verið að gera hverja stofnunina á fætur annarri verr hæfa til að gegna þjónustu sinni við landsmenn í heild.

Framsóknarflokknum verður að vísu ekki hnikað, þótt kjósendur höfuðborgarsvæðisins flýi hann. En hitt er ljóst, að hafi menn á því svæði ekki atvinnu eða sporzlur af stuðningi við Framsóknarflokkinn, ætti stuðningurinn að flokkast undir eins konar sjálfseyðingarþörf.

Ein flenging í kosningum ætti hins vegar að nægja Sjálfstæðisflokknum til svo sem tíu ára. Nú er ástandið í flokknum þannig, að helztu ofstækismenn byggðastefnunnar ráða lögum og lofum á Alþingi, en meintir þingmenn höfuðborgarsvæðisins hafast ekki að til varnar.

Við þetta blandast nýfengið og ákaflega óhagkvæmt hatur margra ráðamanna Sjálfstæðisflokksins á höfuðborginni vegna tímabundinna valdahlutfalla í borgarstjórn. Tímabært er orðið að refsa flokknum fyrir þetta og láta hann velja að nýju, hvaðan hann vill hafa fylgi.

Geðlitlir þingmenn höfuðborgarsvæðisins þola, að duglegir ofstækismenn úr Bolungarvík og víðar gangi berserksgang gegn hagsmunum höfuðborgarsvæðisins og komi meðal annars í veg fyrir, að með bættum umferðarmannvirkjum sé unnt að draga úr slysum.

Við næstu kosningar kemur helmingur allra þingmanna af höfuðborgarsvæðinu. Þá er brýnt, að kjósendur svæðisins taki umboðið af öllum aumingjunum.

Jónas Kristjánsson

DV