Heilbrigðisráðuneytið er að reyna að hafa vit fyrir fólki með ofstækisfullu frumvarpi til laga um tóbaksvarnir, sem fékk óblíðar viðtökur á Alþingi í fyrradag. Lagafrumvarpið vill banna áberandi tóbaksneyzlu á tónlistarmyndböndum, sem framleidd eru hér á landi.
Fólk hlýtur að spyrja, hvort næsta skref felist í að banna áberandi tóbaksneyzlu í kvikmyndum, sem framleiddar eru hér á landi og í leiksýningum, sem settar eru upp, svo og frásagnir af áberandi tóbaksneyzlu í bókum, blöðum og tímaritum, sem prentuð eru hér á landi.
Sérstakt bann við sjáanlegri notkun tóbaks á innlendum tónlistarmyndböndum hefur ekki önnur áhrif en þau að spilla gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar, af því að framleiðsla tóbaksmettaðra myndbanda flytzt bara úr landi. Síðan borga menn gjaldeyri fyrir að flytja þau inn.
Gildandi bann við auglýsingum tóbaks í innlendum fjölmiðlum kemur að litlu gagni, af því að allt flóir hér í brezkum og bandarískum tímaritum, sem meira eða minna ganga fyrir slíkum auglýsingum. Hefur ráðuneytinu ekki dottið í hug að banna innflutninginn?
Aðgerðir ríkisvaldsins gegn birtingu tóbaks í innlendum fjölmiðlum ná ekki til hliðstæðra erlendra fjölmiðla, sem óspart eru notaðir hér á landi, allt frá kvikmyndum yfir í dagblöð. Þar á ofan heftir auglýsingabannið samkeppnisstöðu innlendrar fjölmiðlunar gagnvart erlendri.
Ef heilbrigðisráðuneytið vill stíga skref í þá átt að hafa vit fyrir Íslendingum á þessu sviði, er stórvirkara að snúa sér að þeim aðila, sem hefur einkarétt á allri sölu tóbaks hér á landi. Það er ríkið sjálft. Af hverju bannar frumvarpið ekki alla sölu tóbaks hér á landi?
Tóbak er hættulegt eitur og fíkniefni, sem felur í sér niðurlægingu sérhvers, sem það notar. Upplýsingar um skaðsemi þess hafa dregið töluvert úr notkuninni hjá fullorðnu fólki, en hafa því miður ekki komizt nógu vel til skila hjá unglingum. Það er því úr vöndu að ráða.
Reykingabann er víða komið til sögunnar á heimilum og vinnustöðum. Á enn fleiri stöðum eru leyfðar reykingar á takmörkuðum svæðum. Þessi bönn eru yfirleitt orðin til vegna samkomulags á heimilum og vinnustöðum, án þess að tilskipanir hafi komið að ofan.
Ef heilbrigðisráðuneytið telur ekki, að þessi þróun mála sé nægileg, og vill láta Stóra Bróður koma ákveðnar til skjalanna, er miklu einfaldara að koma á banni við innflutningi og sölu tóbaks en að reyna að koma í veg fyrir, að reykingar sjáist á tónlistarmyndböndum.
Og sé heilbrigðisráðuneytið almennt að komast á þá skoðun, að bezt sé að hafa vit fyrir fólki, liggur beinast við að banna fleira óhollt en tóbak og fíkniefni. Áfengis- og sykurbönn hljóta að vera ofarlega á óskalista þeirra, sem hafa ræktað með sér ofstækisfulla forsjárhyggju.
Heilbrigðisráðuneytið er annars ekki þekkt fyrir mikinn áhuga á almennum heilbrigðismálum þjóðarinnar. Fjárlagatillögur þess ganga að mestu út á viðgerðarþjónustu á sjúkrahúsum, en ná afar lítið til fyrirbyggjandi aðgerða. Ráðuneytið ætti að heita sjúkdómaráðuneyti.
Ef tóbaksfrumvarp sjúkdómaráðuneytisins er merki þess, að það sé að snúa sér að forvörnum í auknum mæli og verða að eiginlegu heilbrigðisráðuneyti, er nærtækari og síður umdeilanleg verk að vinna á öðrum sviðum en í reykingabanni á tónlistarmyndböndum.
Andúðin gegn óhollustu, sem felst í hinu misheppnaða tóbaksfrumvarpi, mætti gjarna fá útrás á fleiri sviðum og þá með áhrifaríkari hætti en með boðum og bönnum.
Jónas Kristjánsson
DV