Ofstjórn án aðhalds

Greinar

Enn hlaðast upp birgðir óseljanlegra afurða hins hefðbundna landbúnaðar, þrátt fyrir mikla og vaxandi ofstjórn. Svo er nú komið, að tíu bændur á Suðurlandi eru búnir með mjólkurframleiðslukvótann, þótt beztu framleiðslumánuðir ársins séu enn eftir.

Reiknað er með, að flestir sunnlenskir mjólkurbændur verði búnir með framleiðslukvóta sinn í júlí eða ágúst. Á því stigi eiga þeir ekki annarra kosta völ en hella mjólkinni niður, því að stjórnendur landbúnaðarins hafa tekið við of mikilli mjólk til þessa.

Skynsamlegra hefði verið að byrja fyrr að draga saman seglin í hefbundnum landbúnaði. Ef tekið hefði verið mark á samdráttarsinnum fyrir aldarfjórðungi og framleiðslan minnkuð um svo sem 1-2% á ári, væri landbúnaðurinn ekki í úlfakreppunni, sem nú blasir við.

Aðgerðir Framleiðsluráðs og annarra stofnana, sem stjórna landbúnaðinum, hafa reynzt gagnslausar. Bændur hafa verið hvattir og styrktir allt til hins síðasta til að byggja fjós, sem þeir geta svo ekki notað, af því að ekki er hægt að úthluta þeim neinum kvóta.

Bóndinn með 40 kýr í rýeistu fjósi og engan framleiðslurétt er dæmigert fórnardýr ofstjórnar í landbúnaði. Ráðamenn í greininni hafa staðið grimman vörð um gjafalán og styrki til fjárfestingar og framleiðsluaukningar, þótt samdráttur væri heppilegri.

Sem dæmi um vitleysuna má nefna, að hinn rangnefndi Framleiðnisjóður landbúnaðarins framselur mjólkurframleiðslukvóta, sem hann kaupir dýrum dómum af bændum. Í stað þess að frysta hinn keypta kvóta, er hann seldur öðrum og heldur þannig uppi vandanum.

Ofstjórnin er svo mikil, að sjóðir landbúnaðarins hamast við að kaupa og selja búmark og fullvirðisrétt, svo og að leigja þessi hugtök af bændum til skamms tíma. Í öllum tilvikum missir viðleitnin marks, því að hún dregur ekki úr framleiðslu, sem ekki selst.

Óselt nautgripakjöt í landinu nemur nú 1320 tonnum eða hálfs árs neyzlu þjóðarinnar. Kjötfjall þetta hefur stækkað um 45% á einu ári. Þannig hefur enn eitt fjallið bætzt við dilkakjötsfjallið, smjörfjallið og ostafjallið, nýr minnisvarði um samtvinnaða ofstjórn og óstjórn.

Meðan fjöllin hlaðast upp í hinum hefðbundna landbúnaði, leysa eggja-, kjúklinga- og svínabændur sín vandamál með því að halda útsölu til að eyða sínum fjöllum í fæðingu. Þeir leysa vandann á sinn kostnað, en ekki á kostnað skattgreiðenda og neytenda.

Dæmigert fyrir hugarfar stjórnenda landbúnaðarins og meirihlutans, sem þeir ráða á Alþingi, er, að landbúnaðarráðherra er leyft að leggja 200% toll á innfluttar kartöfluflögur, af því að innlendum snillingum hefur dottið í hug að setja upp tvær flöguverksmiðjur.

Fyrst eru skattgreiðendur látnir beint eða óbeint borga gæluverksmiðjur landbúnaðarins og síðan eru neytendur látnir borga tjónið af framleiðslunni. Raunar þarf ótrúlega ósvífni til að láta sér detta í hug, að hugmyndaflug skuli fjármagnast á þennan hátt.

Þess er skemmst að minnast, að undanfarin ár hafa skattgreiðendur verið látnir kosta hverja kjarnfóðurveksmiðjuna á fætur annarri, þótt hinar fyrri sætu uppi með ársframleiðslu eða meira. Og síðasta snilldin felst í að láta skattgreiðendur greiða niður áburð.

Þetta margþætta svínarí er framið á vegum hinna ábyrgðarlausu stjórnmálaflokka, sem kvöddu veturinn með því að samþykkja 200% kartöfluflögutollinn.

Jónas Kristjánsson

DV