Riðum með Halldóri Olgeirssyni á Bjarnastöðum um Landsbjörg og Hrútabjörg á eystri bakka Jökulsár á Fjöllum. Fórum upp að Hafursstöðum og sáum Rauðhóla og Hljóðakletta handan árinnar. Hvergi er hægt að koma bílum að á þessari reiðleið og gönguleið. Héðan séð eru Rauðhólar mesta furðuverkið, löng röð óvætta í gljúfurbarminum. Við Halldór vorum sammála um, að allt lambakjöt beri að merkja upprunajörðinni. Við fórum líka í þjóðgarðssafnið í Ásbyrgi, sem er afar vel hannað nútímasafn. Það gerir á einfaldan hátt grein fyrir ótal forvitnilegum þáttum svæðisins, sem nær frá Dettifossi niður í sjó.