Ofurmenni Íslands

Greinar

Forsætisráðherra hefur neitað að biðjast afsökunar á að hafa flaggað dylgjum um, að erlendir peningar standi að baki kaupum á tveimur togurum frá Patreksfirði til Hafnarfjarðar. Honum finnst ekkert athugavert við, að hann stundi órökstuddan söguburð af slíku tagi.

Forsætisráðherra hefur áður gert sig sekan um að fara opinberlega með slúðursögur. Þá héldu menn, að söguburðurinn væri slys, en eftir Hafnarfjarðar-dæmið má öllum vera ljóst, að forsætisráðherra telur órökstuddar dylgjur sínar vera sárasaklausar.

Forsætisráðherra svarar einstaka sinnum erfiðum spurningum fjölmiðla með, að hann hafi hitt mann, sem hafi haft athygliverða skoðun á málinu. Svo virðist sem einstakir menn á förnum vegi geti snúið honum til fylgis við sjónarmið, sem flestum öðrum finnast vafasöm.

Í gamni hefur verið sagt, að prestar þjóðarinnar ættu á hverjum morgni að biðja fyrir því, að forsætisráðherra okkar hitti ekki í dag neinn mann með sérkennilegar skoðanir á lausn aðkallandi vandamála og ekki heldur neinn, sem fer með órökstutt bæjarslúður.

Samt hefur forsætisráðherra gengið sæmilega að afla sér trausts með þjóðinni. Hann er óneitanlega afar fær við að ná fram málamiðlunum við erfiðar aðstæður. Honum tókst að halda ríkisstjórninni á floti í eitt ár án meirihluta, áður en Borgaraflokkurinn gekk inn.

Styrkur forsætisráðherra umfram aðra flokksleiðtoga í ríkisstjórninni felst þó einkum í, að hann er laus við hroka. Hann talar ekki niður til fólks. Hann fær ekki belging, þótt hann telji sig hafa komizt að raun um, að hann sé eins konar Schlüter íslenzkra stjórnmála.

Öðru máli gegnir um utanríkisráðherra og fjármálaráðherra, sem báðir telja sig að ástæðulausu vera ofurmenni andans og líta jafnframt niður á annað fólk. Þeir njóta einskis trausts utan flokka sinna og raunar ekki heldur nema nokkurs hluta flokkssystkina sinna.

Hins vegar dreifa þeir hættunum í kringum sig, af því að þeir eru alltaf að reyna að gabba fólk, selja því eitthvert rugl. Nýjasta dæmið er hugmynd fjármálaráð herra um að breyta fjárhagsári ríkisins, svo að það sé frá miðju almanaksári til miðs almanaksárs.

Að baki hástemmdrar sölumennsku ráðherrans er afar einföld forsenda. Hún er, að breytingin veldur því, að gagnrýnendur meðferðar hans á fjármálum ríkisins munu eiga erfiðara með allan samanburð, af því að hlutirnir hætta að vera sambærilegir milli ára.

Enginn íslenzkur stjórnmálamaður síðustu áratuga hefur gengið lengra en fjármálaráðherra í að halda einu fram og framkvæma annað í senn. Í einu orðinu ávítar hann blýantsnagara hins opinbera fyrir eyðslusemi og í hinu tekur hann ákvarðanir, sem magna eyðsluna.

Verðugt lokaverkefni nemenda í stjórnmálafræðum væri að rekja opinber ummæli fjármálaráðherra og utanríkisráðherra eins og þau hafa komið fram á prenti og í ljósvakamiðlum frá miðju síðasta ári og fram eftir þessu ári. Úr því ætti að koma góð loddarasaga.

Menn, sem af einhverjum ástæðum fá þá flugu í höfuðið, að þeir séu ofurmenni, eru hættulegir umhverfi sínu, ef þeir komast til valda. Ef þeir þar á ofan telja ofurmenn vera svo mjög yfir aðra hafna, að þeim séu ýmis brögð leyfileg, er rétt að þjóðin komi þeim frá.

Skilningur á persónuvanda af þessu tagi er einn bezti lykill kjósenda að fráhvarfi frá hinni séríslenzku kreppu, sem foringjarnir eru að leiða yfir þjóðina.

Jónas Kristjánsson

DV