Var ekki hissa, að nokkrir þingmenn sáu ástæðu til að hrósa Almannavörnum ríkisins á þingi. Þeir elta oftast ruglið. Saup hins vegar hveljur, þegar ég las fáránlegan leiðara Fréttablaðsins um ágæta frammistöðu Almannavarna á Fimmvörðuhálsi. Sú frammistaða var raunar til skammar. Fyrst fóru þær að banna allt út og suður og valda tjóni. Stöðvuðu flugumferð á þremur stærstu flugvöllum landsins, lokuðu þjóðvegi 1 og áreittu bændur í nágrenni gossins. Allt var þetta út af penu túristagosi. Þegar Almannavarnir áttuðu sig, voru þær seinvirkar við að falla frá ruglinu. Fyrst ofvirkar, síðan seinvirkar.