Ógnin kemur að innan

Greinar

Vestrænt lýðræði og markaðshyggja er svo einráð hugmyndafræði í heiminum um þessar mundir, að fræðimenn eru farnir að skrifa um endalok mannkynssögunnar. Við séum komnir svo nálægt leiðarenda í þjóðfélagslegum efnum, að fleiri kúvendingar verði ekki.

Sigur vestræns lýðræðis og markaðshyggju yfir austrænum kommúnisma er alger. Hugmyndakerfin tvö stefndu að sama marki eftir misjöfnum leiðum. Þegar annað hrundi, en hitt stóð föstum fótum, voru engin þriðju markmið til að taka við af kommúnismanum.

Hvarf spennunnar milli austurs og vesturs hefur leitt til skorts á óvinum, sem vestrænt lýðræði og markaðshyggja geti borið sig saman við og þannig öðlast nýja spennu til að sameinast um. Helzt er það heimur íslams, sem hefur sýnt burði til að leika þetta hlutverk.

Þótt íslam sé trú og sumpart trúarofstæki, er ekki fólgin í henni neitt umtalsvert viðnám gegn vestrænum hugmyndum. Mestallt daglegt líf múslíma er í vestrænum brautum og öll tækniþróun íslamskra ríkja er vestræn í stóru og smáu. Viðnám íslams stendur völtum fótum.

Á síðustu árum hafa risið hugmyndir um allt annars konar viðnám arftaka Konfúsíusar í Kína og líklega enn frekar í Singapúr. Þar er talað um, að til sé austræn hugsun, sem muni ná gífurlegum efnahagsárangri án þess að taka trú á vestrænt lýðræðiskerfi.

Of lítil reynsla er komin á þessa hugmyndafræði. En hætt er við, að hún veðrist illa, þegar og ef kínverskir ráðamenn vilja takast á við víðtækan skort á trausti milli manna, útbreidda spillingu og lélega sjálfsvirðingu þeirra, sem verða að lifa í tvískinnungi kerfisins.

Hin nýja Konfúsíusarstefna er alls óskyld velgengni Japana í nútímanum. Þar í landi hefur vestrænt lýðræði og markaðsbúskapur hvort tveggja verið tekið upp í heilu lagi og engar alvarlegar hugmyndir hafðar uppi um, að til séu eins konar austræn gildi, sem henti betur.

Hvorki Konfúsíus né Múhameð geta tekið við af Marx og Lenín. Vestrænu lýðræði stafar ekki önnur ógn að utan en sú, sem hópar skæruliða gefa tilefni til. Hryðjuverk verða framin í vestrænum borgum, en þau raska ekki heimsyfirráðum vestrænnar hugmyndafræði.

Hættan kemur fremur að innan. Vestrænt lýðræði getur glutrazt af innri orsökum. Það getur hrunið af óhóflegri félagshyggju, óhóflegri gróðahyggju eða óhóflegum sofandahætti almennings eftir áratuga neyzlustefnu og notkun deyfilyfja á borð við sjónvarp.

Ríki Norður- og Vestur-Evrópu eru byrjuð að takast á við óhóflega félagshyggju, sem hefur sligað sameiginlega sjóði þjóðanna og aukið atvinnuleysi. Flest bendir til, að smám saman finnist leiðir til að hafa hemil á opinberum útgjöldum og hömlum á frjálsri atvinnutilfærslu.

Bandaríkjunum hefur ekki tekizt eins vel að ná tökum á óheftri gróðahyggju og þeirri sundurtætingu þjóðfélagsins, sem henni fylgir. Sjálfsvirðing hrynur og miðborgir breytast í félagslega frumskóga. Langvinn málaferli taka við hlutverki gagnkvæms trausts milli manna.

Lýðræði og markaðsbúskapur blómstra, ef ríkið hefur hóf á afskiptum sínum, ef lög og reglur gilda jafnt fyrir alla, ef fólk ber virðingu fyrir sjálfu sér og ef það telur sig hafa ástæðu til að treysta öðru fólki. Á þessum siðferðilega grunni hafa þjóðir orðið frjálsar og ríkar.

Erfiðasta skilyrði vestræns lýðræðis er svo, að fólk sinni skyldum sínum og réttindum sem frjálsir borgarar, en koðni ekki niður í neyzlusjúk sófadýr.

Jónas Kristjánsson

DV