Ögrun er ágæt

Greinar

Í grundvallarverki sínu um mannkynssöguna notaði Arnold Toynbee sagnfræðingur Íslendinga sem dæmi um mikilvægi ögrunar í sögu þjóða. Hann benti á, hvernig landnámsmenn urðu að skilja við vini og ættingja, eignir og mestan hluta bústofns til að halda út á hafið.

Það er mikil ákvörðun að brjóta brýr að baki sér og halda út í óvissuna. Að mati Toynbees felst í því ögrun, sem getur lyft heilum þjóðum. Þannig hafi norrænar bókmenntir verið samdar og skráðar á Íslandi, en ekki hjá þeim, sem urðu eftir á heimaslóðum forfeðranna.

Toynbee taldi, að ögrun gæti gengið of langt og benti á Grænland sem dæmi um það. Þar hafi óblíð náttúra orðið norrænum mönnum of viðamikið viðfangsefni, þannig að þar reis ekki norræn hámenning og að þar fjaraði norrænt landnám út á nokkrum öldum.

Þessi dæmi eru aðeins tvö af mörgum, sem Toynbee rekur til stuðnings þeirri kenningu, að nauðsynlegt sé fyrir fólk og þjóðir að lenda í erfiðleikum. Slíkt hvetji til átaka við verkefni, hvort sem þau eru á sviði atvinnu eða efnahags, vísinda eða tækni, lista eða menningar.

Þetta hljómar ekki ókunnuglega. Margir þekkja samlíkinguna við deiga járnið, sem herðist í eldinum. Fólk og þjóðir hafa tilhneigingu til að koðna niður í aðgerðalitlum þægindum, ef allt gengur í sífellu sinn vanalega gang. Vandamál og tækifæri rekur þá ekki á fjörurnar.

Tuttugasta öldin hefur gefið okkur tækifæri til að mæta ögrun, sem minnir á landnámsmenn, þótt hún sé ekki eins róttæk. Það er búseturöskunin í landinu. Um aldamót bjuggu níu af hverjum tíu Íslendingum í strjálbýli, en nú býr þar innan við einn af hverjum tíu.

Þetta stuðlaði að innri spennu, sem varð sumum helztu rithöfundum þjóðarinnar yrkisefni á fyrri áratugum. Þeir fjölluðu um bóndasoninn, sem flúði á mölina og glataði sálu sinni. Raunveruleiki flestra flóttamanna var þó annar og betri. Þeir festu rætur á nýjum stað.

Höfuðborgarsvæðið er niðurstaða þessara miklu þjóðflutninga Íslendinga á tuttugustu öld. Þar eru sífelldir tónleikar og listsýningar. Þar eru leikhúsin og kaffihúsin. Þar eru gefin út blöð og ljósvakamiðlar. Þar fer fram meginþorri allrar sköpunar í vísindum og listum.

Myndun nútímalegs menningarsvæðis í þéttbýlinu við Faxaflóa er hin síðari af tveimur byltingum Íslendingasögunnar. Flóttinn á mölina varð þjóðinni sú ögrun, sem lyfti henni inn í menningarlegan nútíma eftir fremur ömurlega tilveru á nokkrum myrkum eymdaröldum.

Fólkið, sem flutti til höfuðborgarsvæðisins kannast almennt ekki við að hafa skaðazt af þessari röskun. Þvert á móti varð flutningurinn flestum til gæfu og gengis, þótt undantekningar séu á því eins og öðru. Röskun búsetu í landinu var Íslendingum mikið heillaskref.

Af pólitískum afturhaldsástæðum hefur verið reynt að sporna gegn þessari röskun og draga úr ögruninni. Vörnin lagðist í fast kerfi á sjöunda áratugnum, þegar farið var að greiða mönnum stórfellda og sjálfvirka styrki til að fá þá til að halda áfram búskap í strjálbýli.

Viðnámið hefur borið þann skaðlega árangur, að mjög hefur dregið úr flutningi fólks úr strjálbýli í þéttbýli á síðasta aldarfjórðungi. Það hefur sparað mörgum að lenda í röskun og ögrun búferlaflutninga og að freista gæfunnar í ótal tækifærum höfuðborgarsvæðisins.

Hin afturhaldssama skoðun, að röskun sé skaðleg og að hið opinbera eigi að hamla gegn henni, styðst ekki við reynslu Íslendinga og annarra landnámsþjóða.

Jónas Kristjánsson

DV