Bush Bandaríkjaforseti hefur fryst í fjóra mánuði beiðni Ísraelsstjórnar um 600 milljarða króna lánsábyrgð til að byggja húsnæði yfir innflytjendur frá Sovétríkjunum. Frystingin stafar af, að fullvíst er talið, að féð verði notað á hernumdum svæðum Palestínu.
Þessi frysting er fyrsta merkið um, að gjafa- og lánadrottinn Ísraels, Bandaríkjastjórn, ætli ekki að sætta sig öllu lengur við útþenslustefnu Ísraels í Palestínu og tilraunir Ísraelsstjórnar til að spilla væntanlegri friðarrráðstefnu ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs.
Komið hefur nokkrum sinnum í ljós, að hingað til hefur Ísraelsstjórn notað styrki og lán frá Bandaríkjunum til að koma innflytjendum frá Sovétríkjunum fyrir í hinum herndumdu löndum í Palestínu. Þetta er tilraun til að nema þar land og svæla Palestínumenn á brott.
Bandaríkjastjórn hefur oft beðið Ísraelsstjórn um að láta af þessari iðju, sem er ill í sjálfu sér, auk þess sem hún dregur úr líkum á friðarsamningum í púðurtunnu botnalanda Miðjarðarhafs. Ævinlega hefur Ísraelsstjórn látið þessi tilmæli sem vind um eyru þjóta.
Ariel Sharon, húsnæðisráðherra Ísraels, hefur nokkrum sinnum gengið svo langt að ögra James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna með því að nota komur hans til Ísraels til að tilkynna nýjar húsnæðisframkvæmdir fyrir Ísraela á hernumdu svæðunum.
Rechavan Zeevi, ráðherra án ráðuneytis í stjórn Ísraels, hefur sakað Bush um gyðingahatur. Það er gamalkunn og sjálfvirk lýsing af opinberri hálfu á hugarfari þeirra, sem dirfast að hamla gegn eða mæla á móti frekju og yfirgangi Ísraels sem ríkis og þjóðfélags.
Ísrelsstjórn hefur sigað fimmtu herdeild sinni í Bandaríkjunum á þingmenn til að reyna að koma í veg fyrir, að frystingin nái fram að ganga á Bandaríkjaþingi. Þrýstistofnun fimmtu herdeildarinnar, Aipac, hefur mikil afskipti af bandarískum stjórnmálum.
Bandaríkjamenn hafa löngum látið sér lynda, að Aipac hefði mikil áhrif á val þingmanna með því að styðja suma með peningum og níða skóinn niður af öðrum. Þessar járngreipar hafa vonandi linast, úr því að huglítill Bandaríkjaforseti treystir sér í andóf.
George Bush hefur raunar gefið í skyn, að hann muni beita neitunarvaldi, ef bandaríska þingið lætur undan þrýstingi fimmtu herdeildarinnar. Jafnframt hefur komið í ljós, að þeim þingmönnum hefur fjölgað, sem treysta sér til að verjast fimmtu herdeildinni.
Eini gallinn við ákvörðun Bandaríkjaforseta er, að hún er tengd óbeinum hótunum um, að Ísraelsstjórn hagi sér sómasamlega við væntanlegt samningaborð í botnalöndum Miðjarðarhafs. Þrýstingur af því tagi hefur tilhneigingu til að hefna sín um síðir.
Réttari stefna væri að frysta ekki fyrirgreiðsluna, heldur hætta alveg við hana. Ennfremur ætti Bandaríkjastjórn að láta af öllum stuðningi við Ísrael, að fenginni þeirri reynslu, að skjólstæðingurinn hafi með langvinnu framferði sínu fyrirgert rétti til stuðnings.
Það er ófært, að spenna vesturs og ríkja Íslams sé sífellt mögnuð af hlutdrægum stuðningi Bandaríkjastjórnar við ríki, sem færir sig jafnt og þétt upp á skaftið í yfirgangi og hreinni útþenslustefnu gagnvart nágrönnum sínum. Þessi stuðningur skaðar Vesturlönd.
Vonandi er ábyrgðarfrysting Bush þó merki þess, að vindátt sé að snúast í Bandaríkjunum; að ríkisstjórnin þar fari að vanda betur til skjólstæðinga sinna.
Jónas Kristjánsson
DV