Óhæfir afturhaldsmenn

Greinar

Pálmi í Hagkaupi hefur gert meira fyrir íslenzka launþega en samanlagðir íslenzkir verkalýðsrekendur. Hann hefur lækkað útgjöld heimilanna og þar með bætt lífskjörin í landinu. Hann og Jóhannes í Bónusi gegna nú því hlutverki, sem verkalýðsrekendurnir valda ekki.

Með einni stefnubreytingu gætu verkalýðsrekendur komið sér upp fyrir þá Pálma og Jóhannes í gagnsemi fyrir félagsmenn í stéttarfélögum. Þeir gætu sett á oddinn kröfuna um, að ríkið hætti að láta neytendur og skattgreiðendur borga 20 milljarða á ári í landbúnað.

Þetta gera verkalýðsrekendur ekki, enda eru þeir önnum kafnir við að tryggja sem bezt, að ekki falli niður biðlaun til opinberra embættismanna, sem eru einkavæddir og taka tvöföld laun í hálft ár. Hjarta verkalýðsrekendanna slær nefnilega ekki hjá almenningi.

Verkalýðsrekendur bera meira að segja ábyrgð á búvörusamningnum, sem gerður var fyrir ári og tryggir 20 milljarða verðmætabrennslu á hverju ári fram til ársins 1998. Verkalýðsrekendur tóku búvörusamninginn inn í þjóðarsátt sína um að hækka ekki kaupið.

Verkalýðsrekendur hafa áratugum saman verið inni á gafli í því ferli, sem byggt hefur upp skrímslið, sem brennir 20 milljörðum á hverju ári. Þeir hafa skipað sæti í fimm og sex og sjö manna nefndum, sem hafa séð um sjálfvirkan ríkisrekstur á búvöruskrímslinu.

Talan 20 milljarðar felur í sér sjálfstætt mat nokk-urra þekktra hagfræðinga í Háskólanum og Seðlabankanum á tjóni þjóðfélagsins af innflutningsbanni búvöru og af útgjöldum ríkisins til uppbóta, styrkja og niðurgreiðslna í landbúnaði og milliliðakerfi hans.

Þessir 20 milljarðar samsvara 26.000 krónum á mánuði á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þetta er herkostnaður heimilanna af samsæri landbúnaðarins og verkalýðsrekenda um þjóðarsátt, sem felur fyrst og fremst í sér frystingu á kaupi almennings.

Verkalýðsrekendur Verkamannasambandsins, Alþýðusambandsins, bandalags opinberra, kennara og háskólamanna eru sammála um að neita fjögurra manna fjölskyldunni um 26.000 króna sparnað á hverjum mánuði. Þeir mega ekki heyra þetta nefnt.

Þegar Neytendasamtökin og einstök aðildarfélög þess eru að byrja að vakna til meðvitundar um þetta meginhneyksli þjóðfélagsins og farin að byrja að amast við því, bregðast reiðir verkalýðsrekendur víða um land við á þann veg að segja sig út neytendafélagi staðarins.

Verkalýðsrekendur landsins eru afturhald, sem styður annað afturhald í landinu. Þeir hafa ekki minnsta áhuga á velferð almennings, heldur á stöðu sinni í goggunarkerfi, sem þeir hafa byggt upp með stjórnvöldum og þar sem þeir leika hlutverk stjórnarandstöðunnar.

Þess vegna eru verkalýðsrekendur um þessar mundir að reyna að setja allt á annan endann í tilraunum til að koma í veg fyrir, að ráðagerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum nái fram að ganga. Þeir eru að taka þátt í pólitískum menúett.

Félagsmenn stéttarfélaga bera auðvitað ábyrgð á þessari vitleysu. Þeir hafa kosið yfir sig verkalýðsrekendur, sem eru að leika ákveðið hlutverk í pólitískum menúett í goggunarkerfi stjórnvalda, en hafna því að taka til hendinni í hagsmunamálum lágtekjufólksins.

Um Pálma í Hagkaupi og Jóhannes í Bónusi verður vænn kafli í lífskjarasögu aldarinnar, en tæpast málsgrein neðanmáls um verkalýðsrekendur líðandi stundar.

Jónas Kristjánsson

DV