Óhentugt kapphlaup

Greinar

Hagsmunagæzlumenn kjördæma deila þessa dagana ákaft um, hver eigi að fá nýtt álver í sitt skaut. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur lagt sitt lóð á vogarskálina með því að benda á, að með degi hverjum aukist fylgi á Alþingi við álver í Eyjafirði.

Sá hængur er á, að Alþingi stjórnar ekki Atlantal. Það gera nokkrir erlendir forstjórar. Svíarnir í hópnum vilja hvergi byggja nema í Straumsvík, en Hollendingarnir og Bandaríkjamennirnir eru sagðir opnir fyrir fleiri kostum, þótt þeir vilji samt ekki tapa fé.

Sveitarstjórnarmenn hafa gengið á eftir Alumax, Gränges og Hoogovens með grasið í skónum. Þeir hafa jafnvel boðið fría höfn á kostnað útsvarsgreiðenda. Næsta skref verður, að þingmenn kjördæmanna heimta, að ríkið leggi fram fé til að hafa áhrif á staðarval.

Sumir velta fyrir sér að bjóðast til að slá af kröfum um mengunarvarnir. Það má telja eðlilegt framhald á örvæntingarfullri sölumennsku, sem felur í sér að telja erlendum forstjórum trú um, að í rokinu hér á landi þurfi ekki eins miklar mengunarvarnir og í útlöndum.

Landsvirkjun hefur tekið þátt í kapphlaupi óþolinmæðinnar og spillt samningsaðstöðu. Í haust voru fluttir til Búrfells vinnuskúrar til að undirbúa nýja virkjun Þjórsár. Samt var ekki búið að semja um neitt álver og þaðan af síður um neitt orkuverð til Landsvirkjunar.

Þyngsta undiraldan í hinu ósæmilega kapphlaupi við tímann er vandi iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar, sem vilja, að framkvæmdir við orkuver og álver verði í fullum gangi við næstu kosningar, svo að kjósendur verði ánægðir með góða þenslu og góða yfirvinnu.

Hagfræðinga greinir á um gildi álvers. Flestir eru þó sammála um, að álver sé almennt séð gagnleg viðbót við þjóðarbúið, ef rétt er á málum haldið og menn leika ekki af sér í tímahraki. Gagnsemi nýs álvers fer mjög eftir orkuverði, staðarvali og mengunarvörnum.

Því miður hefur ekkert af þessu enn verið ákveðið. Þess vegna er ekkert hægt að fullyrða um gagnsemi álversins, sem Alumax, Gränges og Hoogoven hafa samið um að reisa hér. Hins vegar eru ástæður til að hafa áhyggjur af, að útkoman verði ekki nógu hagstæð.

Ef hagsmunaaðilar í sveitarstjórnum og á Alþingi leiðast til að verja skattfé til að hafa áhrif á staðarval, gerir það dæmið óhagstæðara fyrir þjóðarbúið í heild. Dæmi um slíkt er tilboð um að búa til höfn, sem kostar peninga og mesta peninga, ef þeir eru teknir að láni.

Ef Landsvirkjun er mjög óðfús til framkvæmda, hefur það slæm áhrif á kraft hennar til að ná beztu samningum um verð orkunnar til álversins. Ótímabær flutningur vinnuskúra er dæmi um, að fyrirtækið er búið að ákveða, að samið verði, þótt ekki sé vitað um verð.

Ef ríkisstjórn og aðrir innlendir málsaðilar vilja telja sér trú um, að ekki þurfi að halda uppi mengunarvörnum í stíl við nútímaþekkingu, og ímynda sér, að ófullkomnar og gamlar mengunarvarnir Ísals geti verið fordæmi, er líklegt, að við verðum fyrir miklum skaða.

Forsætisráðherra hefur haft sig mjög í frammi í þeim hópi, sem vill selja útlendum ferðamönnum ímynd af Íslandi sem óspilltu landi með hreinu og tæru lofti. Lélegir mengunarsamningar við nýtt álver eru ekki til þess farnir að færa raunveruna nær slíkum draumum.

Sérstaklega er mikilvægt að vekja athygli á, að vothreinsibúnað þarf við nýtt álver, þótt það hafi ekki talizt nauðsynlegt á sínum tíma, þegar samið var um Ísal.

Jónas Kristjánsson

DV