Óheppileg uppákoma.

Greinar

“Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Þetta sagði George Gallup, hinn kunnasti í heiminum af þeim, sem hafa fengizt við að mæla í tölum skoðanir fólks.

Vinnuaðferðin, sem DV notar í skoðanakönnunum, hefur frá upphafi eða fimm sinnum í röð verið svo nálægt raunverulegum kosningaúrslitum, að meðalskekkjan hefur aðeins verið 0,4 prósentustig, minni en hjá Gallup sjálfum.

Þegar búið er að reyna aðferðina fimm sinnum, tvisvar í alþingiskosningum, tvisvar í borgarstjórnarkosningum og einu sinni í forsetakosningum, alltaf með sama frábæra árangrinum, eiga öfundarmenn að hafa hljótt um sig.

DV notar önnur vinnubrögð en Gallup, af því að íslenzka þjóðfélagið er öðruvísi en hið bandaríska. Í upphafi var skiljanlegt, að sumir félagsvísindamenn efuðust um aðferðina, sem síðan hefur sí og æ staðizt dóm reynslunnar.

Gagnrýni háskólakennara hefur hljóðnað, enda telja þeir sig verða að taka mark á staðreyndum. Hið sama er ekki hægt að segja um ýmsa stjórnmálamenn, sem hvað eftir annað rugla út í loftið um þessar skoðanakannanir.

Hin raunverulega orsök gremju stjórnmálamanna er, að skoðanakannanir draga úr möguleikum þeirra til að ljúga að fólki um strauma fylgis og sigurlíkur þeirra eigin flokka, svo sem þeir gerðu fyrir tilkomu skoðanakannana.

Síðasta haldreipi þessara manna hefur verið að krefjast banns við skoðanakönnunum síðustu dagana fyrir kosningar, þar sem birting niðurstaðna kunni að hafa áhrif á hina óákveðnu kjósendur og endanlega ákvörðun þeirra.

Þetta var mest til umræðu í aðdraganda síðustu forsetakosninga. Sumir bjuggust þá við, að birting niðurstaðna mundi beina straumi ákveðinna kjósenda í meira mæli að tveimur efri frambjóðendunum en að hinum tveimur.

Í rauninni kom í ljós, að hinir óákveðnu skiptust á alla frambjóðendurna í svipuðum hlutföllum og hinir, sem höfðu ákveðið sig fyrir skoðanakönnun. Birting niðurstaðna fældi kjósendur ekki frá þeim, sem minni möguleika höfðu.

Enda var fyrir skömmu svo komið, að ekki heyrðust lengur neinar raddir, sem gagnrýndu aðferðafræði og áhrif skoðanakannana. En þá kom skoðanakönnun Helgarpóstsins eins og fjandinn úr sauðarleggnum í síðustu viku.

Þar voru upplýsingar fjórtán kjósenda á Vestfjörðum notaðar til að raða þingsætum niður á flokka. Tveir kjósendur Sjálfstæðisflokksins gáfu einn þingmann og einn kjósandi Sigurlaugarlistans gaf engan þingmann.

Sjálfstæðiskjósendurnir tveir voru svo notaðir til að reikna flokksfylgið, ekki upp á 4% og ekki 4,0%, heldur 4,00%! Að baki talnameðferðinni er eitt höfuðeinkenni félagsvísindamanna, skortur á skilningi á takmörkum líkindareiknings.

Til að bæta gráu ofan á svart forðaðist skoðanakönnun Helgarpóstsins strjálbýlið, þar sem fylgi Framsóknarflokksins er eindregið mest. Þetta leiddi til hrikalegs vanmats könnunarinnar á fylgi flokksins, svo sem bent hefur verið á.

Því miður hefur uppákoma Helgarpóstsins hleypt púkunum út á nýjan leik. Þeir hafa slegið upp ofangreindum göllum og notað tækifærið til að lasta aðrar, óskyldar skoðanakannanir, eins og þeir telji sig geta gleymt dómi reynslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV