Óholl hollustuvernd

Greinar

Nokkur dæmi sýna, að Hollustuvernd ríkisins hefur mistekizt. Í stað þess að vernda hollustu þjóðarinnar reynir stofnunin að vernda ákvarðanir ráðherra um stóriðju. Hún neyðist síðan til að fara undan í flæmingi, þegar aðilar úti í bæ benda á slök vinnubrögð hennar.

Hollustuvernd er raunar stjórnað af einu af pólitískum kvígildum Framsóknarflokksins, sem telur hlutverk sitt vera að slá skjaldborg um iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, þegar þeir fara á kostum í umhverfisspjöllum.

Við stækkun álversins í Straumsvík kom í ljós, að starfsleyfið, sem Hollustuvernd gaf út, braut í mörgum liðum í bága við alþjóðasamninga um mengunarvarnir. Heimiluð var úrelt tækni, sem takmarkaði mengunarvarnir. Heimiluð var losun flúors langt umfram mörk.

Hjörleifur Guttormsson benti á þessi atriði, svo og þau, að brennisteins- og koltvísýringsmengun væri umfram mörk. Hollustuvernd viðurkenndi sum þessara atriða með semingi, en gerði ekkert í þeim. Sérstök úrskurðarnefnd hefur nú krafizt málefnalegrar meðferðar.

Við síendurteknar bilanir mengunarvarna járnblendiversins á Grundartanga hefur Hollustuvernd ekki látið til sín taka. Er stofnunin þó formlegur eftirlitsaðili, sem má beita dagsektum, allt að 100.000 krónum á dag, þar til úr menngunarvörnum fyrirtækis hefur verið bætt.

Í skýrslum járnblendiverksmiðjunnar kemur fram, að stjórn hennar telur hana of fátæka til að laga bilaðan mengunarbúnað. Hefur Hollustuvernd ríkisins tekið þessa yfirlýsingu góða og gilda, enda er fyrirtækið í meirihlutaeigu húsbúndans, það er að segja ríkisins.

Forstjóri Hollustuverndar segir það vera hreint ryk, sem sleppur út vegna bilunar mengunarvarna. Má þá spyrja, hvort ekki sé óþarfi að hafa mengunarbúnað, ef rykið er svona hreint. Prófessor við Háskólann segir hins vegar mikið af brenndri tjöru og olíu í rykinu.

Nú er Hollustuvernd að búa í haginn fyrir nýtt álver á Grundartanga. Í tillögum hennar að starfsleyfi morar allt í óljósu og ónákvæmu orðalagi á borð við “nægilega skilvirkt eftir því, sem unnt er”, standa eigi við ákvæði “eftir mætti” og að taka eigi sýni “tilfallandi”.

Hollustuvernd svaraði ekki fyrirspurnum Heilbrigðisnefndar Kjósarsýslu vegna álversins. Hún lét líka óátalið, að umhverfisráðherra felldi út ellefu skilyrði Skipulagsstjóra ríkisins fyrir byggingarleyfi álversins. Þannig gætir stofnunin ekki umhverfishagsmuna þjóðarinnar.

Bent hefur verið á, að Ísland er aðili að Ríósamningnum, sem skuldbindur okkur til að sleppa ekki meiri koltvísýringi út í andrúmslofið árið 2000 en við gerðum árið 1990. Samt eiga ófullkomnar varnir á Grundartanga að fela í sér tvöfalt meira mengað ryk en í Straumsvík.

Ef við vildum bæta þetta upp með skógrækt samkvæmt ákvæðum Ríósamningsins, yrðum við að verja 6-7 milljörðum til hennar vegna þessa álvers eingöngu. Ríkið hefur ekkert slíkt á prjónunum umfram áður ráðgerða skógrækt vegna annarrar mengunar í landinu.

Ráðherra fullyrðir meira að segja, að Ísland geti notað hluta af þýzkum mengunarkvóta, af því að verksmiðjunni, sem á að rísa hér, hafði áður verið lokað í Þýzkalandi. Slíkar furðusögur lætur Hollustuvernd óátaldar eins og annað, sem kemur frá ráðherrum flokksins.

Hér hafa verið rakin dæmi, sem sýna, hvers vegna Hollustuvernd nýtur ekki trausts. Það er af því, að hún er holl ráðherrum flokksins og óholl þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV