Nýgerðir kjarasamningar voru alls ekki jöfnunar- eða láglaunasamningar eins og aðilar vinnumarkaðarins fullyrtu við undirritun þeirra. Nánari skoðun leiðir í ljós, að þeir auka ójöfnuð í þjóðfélaginu, breikka bilið milli hinna lægst launuðu og hinna, sem betur mega sín.
Fljótlega kom í ljós, að skattafrádráttur lífeyrissjóðsgreiðslna var þyngri á metunum en hin sérstaka krónuhækkun láglauna. Enn síðar kom til viðbótar í ljós, að ýmis sérmál, sem samið var um í leiðinni, bæta kjör ýmissa vel settra hópa, en ekki láglaunafólksins.
Það er ekki nýtt, að stéttaskipting sé aukin með sameinuðu átaki aðila vinnumarkaðarins. Það nýja er, að þessir aðilar ljúga miklu kaldar en áður um niðurstöður og afleiðingar samninga sinna. Þeir eru komnir út í að segja, að hvítt sé svart og að svart sé hvítt.
Erfitt er að greina milli blekkingar og sjálfsblekkingar í túlkun aðila vinnumarkaðarins á niðurstöðum kjarasamninganna. Einstaklingar í þeirra röðum voru búnir að benda á hinn aukna ójöfnuð fyrir undirritun samninganna. En foringjarnir heyrðu ekki eða vildu ekki heyra.
Spjótin hljóta einkum að beinast að hinum réttnefndu verkalýðsrekendum, sem hafa árum og sumir áratugum saman stundað sjónhverfingar og leikaraskap gagnvart umbjóðendum sínum. Þeir taka í nefið og tala digurbarkalega, en eru láglaunafólki verri en alls engir.
Það er háðulegur og réttur dómur um störf verkalýðsrekenda, að Pálmi í Hagkaupi og Jóhannes í Bónusi hafa hvor um sig gert meira fyrir láglaunafólk í landinu en allir verkalýðsrekendur aldarinnar samanlagðir. Hagsmuna alþýðu er víða gætt, en ekki í stéttarfélögum.
Tólfta janúar birtist hér í blaðinu ítarleg fréttaskýring, þar sem spáð var fyrir um feril og niðurstöðu kjarasamninganna. Þar var í smáatriðum sagt fyrir um dansinn, sem stiginn mundi verða fram og aftur í viðræðum deiluaðila. Allt stóðst þetta eins og stafur á bók.
Blaðamaðurinn spáði meðal annars rétt um fyrsta útspil vinnuveitenda, millispil viðræðna um sérkjör, verkfallsboðun og hótanir svonefnds Flóabandalags og endanlega niðurstöðu um nýliðin mánaðamót. Þetta var hægt, af því að blaðamenn þekkja leikaraskapinn.
Samningsaðilar léku hlutverk í leikriti, sem stóð frá miðjum janúar fram í febrúarlok. Leikritið hefur þetta venjulega efni, að fjallið skekst og fæðist lítil mús. Þetta sjónarspil byggist á þjóðarsátt um léleg lífskjör, þjóðarsátt um varðveizlu hins gamla á kostnað hins nýja.
Þjóðarsáttin hefur blómstrað árum saman. Að henni standa ríkisrekendur, atvinnurekendur og verkalýðsrekendur með óbeinum stuðningi þjóðarinnar. Sáttin er mynduð til varnar nokkrum úreltum hornsteinum hagkerfis, sem heldur lífskjörum þjóðarinnar í skefjum.
Þjóðarsáttin felur í sér, að brenna skal á hverju ári nálægt 20 milljörðum í sérstöku tilstandi kringum landbúnaðinn, halda skal úti óhagkvæmu skömmtunarkerfi í sjávarútvegi, ekki skal taka fullan þátt í fjölþjóðlegu efnahagssamstarfi og ekki skal rækta framtíðargreinar.
Skoðanakannanir sýna raunar, að þessi dýra þjóðarsátt nýtur í heild og í einstökum atriðum mikils fylgis meðal fólks. Það er því sanngjarnt, að þjóðin borgi þjóðarsáttina í lélegum og stöðnuðum lífskjörum. Nýju kjarasamningarnir eru eðlilegur þáttur þjóðarsáttarinnar.
Málsaðilar telja hentugt að halda uppi langvinnu sjónarspili við kjarasamninga, til þess að fólk og jafnvel þeir sjálfir ímyndi sér, að stormur sé í vatnsglasinu.
Jónas Kristjánsson
DV