Fyrir mörgum árum var stúdentsárgangur á siglingu um Breiðafjörð, þegar óvænt hófst freyðivínsburður í fólk. Þetta olli hrifningu flestra. “Okkar maður er orðinn ráðherra,” sögðu menn og skáluðu fyrir að vera loksins, loksins orðnir þátttakendur í spillingunni.
Auðvitað átti ráðherrann ekkert með að gefa skólafélögum sínum freyðivín. Engir hagsmunir ríkis og þjóðar voru í veði. Þetta var nákvæmlega sama málið og þegar vinir og kunningjar hafa verið að skjótast í laxveiði með bankastjórunum, sem nú hafa verið hengdir.
Hefðbundinn Íslendingur hefur það helzt við spillingu að athuga, að hann hafi ekki aðstöðu til að taka þátt í henni sjálfur. Menn öfundast út af henni, en hafa ekki á móti henni, ef hún er á réttum stöðum. Þess vegna mun takast að vernda gestalista bankastjóranna frægu.
Þetta jafngildir ekki, að þjóðinni ofbjóði aldrei. Tvennt þarf til að fólk reiðist eins og nú er orðin raunin í Landsbankamálinu. Upphæðirnar þurfa að vera nógu lágar til að fólk skilji þær. Og sökin þarf fremur að felast í persónulegri græðgi en greiðasemi við vildarvini.
Fólk reiðist út af tugmilljóna prívatrisnu bankastjóra, en lætur sér fátt um finnast, þótt sömu menn kasti tugum milljarða króna út um gluggann í spilltum lánveitingum. Það er í lagi að skera Lind úr snörunni fyrir tæpan milljarð, en ekki að veiða lax fyrir milljón.
Í Landsbankamálinu á þjóðin þess kost að opna augun og sjá inn í þríhyrning stórfyrirtækja, stjórnmálaflokka og skömmtunarstofnana, þar sem framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins situr 500 fundi með bankastjórunum frægu sem formaður bankaráðsins.
Fólk kveikir á því, að formaðurinn hljóti að hafa verið meira eða minna meðvitundarlaus á 500 fundum, úr því að hann náði hvorki tökum á innra eftirliti bankans né sérbókhaldi fyrir bankastjóra og vissi ekkert um gífurlega risnu, sem talað var um úti um allan bæ.
Fólk kveikir síður á, að bankinn hefur á sama tíma tapað nokkrum tugum milljarða í furðulegum útlánum og fyrirgreiðslum á borð við þær, sem skáru kaupleigufyrirtækið Lind úr snörunni. Það stafar af, að upphæðirnar eru of háar og græðgi ekki í spilinu.
Þótt bankastjórar hafi misst fótanna í græðgi sinni og orðið að segja af sér, stendur eftir samtryggingarkerfi þar sem fáokun í stjórnmálum, viðskiptum og fjármálum styður hver við bak annarrar. Þetta kerfi hafa kjósendur látið viðgangast og munu áfram þola.
Í svona kerfi situr framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins á 50 fundum með forstjórum stórfyrirtækja, sem fjármagna flokk hans, og situr þess á milli sem formaður á 500 fundum með bankastjórunum, án þess að víkja orði að ruglinu í rekstri bankans.
Við búum í rússlandi, þar sem helztu geirum viðskiptalífsins er hverjum fyrir sig stjórnað af einu til þremur stórfyrirtækjum, sem fjármagna stjórnmálin. Við búum í þjóðfélagi, þar sem bankarekstur og stjórnmál hafa spyrt sig saman í bandalagi fáokunar.
Bankastjórunum hefur verið fórnað til að sefa almenning. Opinber fyrirtæki hafa hrönnum saman afturkallað laxveiðipantanir. En spillingin á stóru sviðunum heldur áfram, af því að þjóðin gerir sér ekki rellu út af gagnkvæmri greiðasemi í valdastöðum.
Hér á landi munu menn áfram fagna, þegar “okkar maður” er orðinn ráðherra og tækifæri gefst fyrir smælingjann að taka pínulítinn þátt í spillingunni.
Jónas Kristjánsson
DV