“Ef starfað væri af manndómi, mundi þjóðin hlíta leiðsögn”, sagði Eggert Haukdal alþingismaður í áramótaviðtali við Dagblaðið. Auðvitað er þetta kjarni vandamála Íslendinga við upphaf níunda áratugar aldarinnar.
Við lifum í draumaheimi, þar sem lausafé er líkþrátt, sparendur hafðir að háði og spotti og brjóstvit Lúðvíks Jósepssonar dýrkað. Áramótagrein hans fjallaði um fiskifræðinga og aðra vonda fræðinga, sem ættu sök á böli Íslands.
Þjóðin hefur auðvitað Lúðvík Jósepsson og aðra leiðtoga, sem hún á skilið. Við höfum kosið þessa menn yfir okkur og höfum raunar ekki yfir neinu að kvarta, sem er ekki sjálfum okkur eingöngu að kenna.
Við höfum meira að segja gert Ólaf Jóhannesson að dýrlingi, þann mann, sem skipulegast hefur unnið að því að segja sem fæst af viti, tala í gátum og lélegum bröndurum, en mest þó hreinlega út í hött.
Ekki er okkur og leiðtogum okkar þó alls varnað. Einna eftirminnilegast frá árinu 1979 er “samstarf þingmanna úr ólíkum flokkum og víðsýnna dagblaða (sem) skóp nýjan tillögugrundvöll af hálfu okkar og málstað okkar Íslendinga í Jan Mayen málinu var borgið, a.m.k. í bili”.
Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður í áramótaviðtali við Dagblaðið. Hann átti þátt í því með Eyjólfi Konráð Jónssyni alþingismanni og fleiri mönnum innan og utan flokka, síðast einnig Ólafi Jóhannessyni, að uppgjafarstefna Benedikts Gröndal náði ekki fram að ganga.
Við heilsuðum hinu nýja ári með því að hlusta á forseta okkar, Kristján Eldjárn, segja almenningi frá því, sem hann sagðist vera búinn að segja ráðamönnum “fyrir nokkrum mánuðum”, að hann mundi ekki gefa kost á sér aftur.
Dagblaðið var raunar búið að segja frá þessari ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum. Það er einmitt hlutverk Dagblaðsins á þessum erfiðu tímum að segja almenningi frá því, sem eingöngu er ætlað eyrum fínu mannanna í stjórnmálunum.
Við höfum þrótt, þegar við mætum nýju ári. Við höfum möguleika á að bjarga í horn mjög góðum málstað okkar í Jan Mayen málinu. Við getum náð tökum á varðveizlu fiskistofna okkar, upphafs og endis nútímalífs í landinu.
Kannski er það kostur hinna köldu og myrku veðra hér á landi, að Íslendingar eru manna duglegastir, hamhleypur til allra verka. Áreiðanlega er hvergi í heiminum unnið eins mikið og hér. Á þessum dugnaði lifum við, þótt okkur séu mislagðar hendur í stjórnmálum.
Eitt mega líka leiðtogar okkar eiga. Þeir hafa stuðlað að fullri atvinnu í landinu fram að þessu. Þetta afrek verður seint ofmetið. Hvað yrði líka um okkur, ef lát yrði á endalausri bjartsýni okkar og sjálfsbjargarviðleitni?
Við sitjum nú og horfum á upphafsþátt þess skrípaleiks, sem kallaður er “tilraunir til stjórnarmyndunar” af herramönnum þeim, sem við höfum kosið yfir okkur. Sá leikur virðist ætla að standa fram eftir vetri.
Sá kostur fylgir þó, að við völd er stjórn, sem engu stjórnar og ekkert má gera. Lao Tse sagði einu sinni, að sú stjórn væri bezt, sem léti þegnana í friði. Megi sá friður haldast.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið