Skátar á Akureyri afla sér fjár með því að bjóða fólki að setja upp raflýsta krossa á leiði í kirkjugörðum um jól og taka 1.200 krónur fyrir það. Á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur eru líka sett upp ljós um jól og kostaði það rúmlega 5.000 krónur, þangað til DV benti á okrið.
Kirkjugarðar Reykjavíkur fela tveimur aðilum að annast þetta og hefur hvor aðili um sig einokun á sínum garði. Þetta einokunarkerfi er svo sem ekki öðruvísi en annars staðar á landinu, þar sem veitt er þjónusta á þessu sviði, en er langsamlega dýrast í Reykjavík.
Sums staðar á landinu er þjónusta af þessu tagi veitt ókeypis. Til dæmis er á Raufarhöfn fyrir hver jól komið fyrir rafmagnstöflu, sem aðstandendur hafa aðgang að. En sá er munurinn, að vegalengdir eru stuttar í þeim kirkjugarði, svo að hver getur haft sinn kapal.
Í stórum kirkjugörðum eins og á Reykjavíkursvæðinu þarf greinilega skipulag á lagningu rafmagnskapla. En slíkt skipulag getur leitt til einokunar og okurs, ef ekki er rétt staðið að málum. Okrið í Reykjavík er ýkt mynd af því, sem getur gerzt við slíkar aðstæður.
Kirkjugarðar Reykjavíkur hafa verið mikið í fréttum á undanförnum árum. Þeir hafa sætt dómi fyrir ólögmæta viðskiptahætti, sem fólust í, að þeir notuðu hluta af kirkjugarðsgjöldum fólks til að greiða niður gjaldskrá jarðarfara til að undirbjóða einkaaðila í útförum.
Prófastsembættin í Reykjavík og þjóðkirkjan báru blak af Kirkjugörðum Reykjavíkur meðan á þessum málaferlum stóð og óhreinkuðu sig af því. Nú láta prófastsembættin og þjóðkirkjan kyrrt liggja, þótt einokunarstofnunin sé að láta okra á aðstandendum látinna á jólunum.
4.000-5.000 krónur eru mikið fé fyrir sumt fólk, þótt kirkjunnar menn telji það ef til vill vera smámuni. Í hópi þeirra, sem vilja skreyta leiði fyrir jólin, eru til dæmis ekklar og ekkjur, sem búa við of þröngan kost. Engin ástæða er til að níðast svona á þessu fólki.
Sem betur fer getur aðhaldssamt fólk komizt hjá einokun kirkjugarðanna með því að kaupa ljósker eða krossa, sem ganga fyrir rafhlöðum og kosta miklu minna en kirkjugarðsrafmagnið. Einokunin er því ekki alger, en ekki er öllum kunnugt um þessar undankomuleiðir.
Stjórnendur Kirkjugarða Reykjavíkur hafa orðið sér til svo mikillar skammar á undanförnum árum, að þeim ber að láta af störfum. Í staðinn á að fá fólk, sem stundar kristilega viðskiptahætti og lendir ekki í réttvísinni fyrir að undirbjóða eða okra í krafti einokunarstöðu.
Bezta leiðin til að skipuleggja jólaskreytingar á leiðum í borginni er, að Kirkjugarðar Reykjavíkur bjóði út verkið og afhendi það þeim, sem býðst til að gera það fyrir lægst verð. Verðið yrði væntanlega nær 1.000 krónum en 4.000 krónum og sennilega innan við 1.000 krónur.
Prófastsembættunum og þjóðkirkjunni ber að líta alvarlegum augum á vandræðin í Kirkjugörðum Reykjavíkur og gera ráðstafanir til að þau endurtaki sig ekki. Ástæðulaust er fyrir þessa aðila að láta blett á sig falla fyrir að halda verndarhendi yfir ókristilegu athæfi.
Allt of mikið er um það hér á landi, að látið sé kyrrt liggja, þótt menn í ábyrgðarstöðum standi sig illa. Alls staðar er verið að sýna óhæfu fólki umburðarlyndi og gera þjóðfélagið þar með óskilvirkara og dýrara en það væri, ef ábyrgðarstöður þess væru betur mannaðar.
Fyrir næstu jól ber prófastsembættunum og þjóðkirkjunni að sjá um, að Reykvíkingar geti fengið raflýsingu á leiði fyrir 1.000 krónur eða lægra verð.
Jónas Kristjánsson
DV