Okvegur

Frá Hallbjarnarvörðum á Bláskógaheiði að Rauðsgili eða Giljum í Hálsasveit í Borgarfirði.

Engar vörður eru á veginum, en hann er smávegis farinn á hverju sumri og sést vel.

Okvegur var þekktur að fornu, sjaldan farinn, enda grýttur og langur. Vermenn fóru oft þessa leið. Sauðir voru stundun reknir hana suður til Reykjavíkur. Í Harðar sögu er sagt frá för Grímkels goða er hann ríður úr Þingvallasveit um Ok: “Hann stefndi öllum bændum á sinn fund til Miðfells, þeim sem þá hafði hann hitt, á tveggja nátta fresti, því að Grímkell hafði goðorð yfir þessum sveitum öllum. Til Miðfells komu sex tugir þingmanna hans. Grímkell segir þeim nauðsynjamál sitt við Torfa og kveðst ætla að fara stefnuför til Torfa. Öllum þótti það vorkunn. Þeir riðu um Gjábakka svo um Kluftir og um Ok; svo neðri leið ofan hjá Augastöðum og svo á Breiðabólsstað. Torfi var eigi heima og var farinn upp í Hvítársíðu.”

Förum frá Hallbjarnarvörðum fyrst norður Kaldadal í Brunna. Þar greinist Okvegur frá Kaldadal og liggur til norðurs um undirhlíðar Oks að vestanverðu. Allur er sá vegur illur yfirferðar og sáralítið farinn. Oft fara menn fyrst norður eftir Kaldadalsvegi í Leirárdrög og fara þaðan þvert vestur á Okveg. Við förum vestan við Fanntófell, mitt á milli þess og Skotmannafells. Síðan um Þvermel og norður yfir Flókudrög á Tjaldhól. Þar skiptast leiðir, önnur liggur niður í Giljar og hin vestari í Rauðsgil. Tökum eystri leiðina fyrst. Hún liggur beint norður um Rauðsgilsdrög og um Smjörtjörn að vestanverðu, síðan austan við Hádegishnjúk og niður að Giljum í Hálsasveit. Vestari leiðin liggur frá Tjaldhól, fyrst í vestur og síðan fljótlega í norður, yfir Rauðsgil og vestur fyrir Sléttafell og í Skammárdal. Við fylgjum þar Skammá til vesturs og förum aftur yfir Rauðsgil. Síðan niður með Rauðsgili að vestanverðu að bænum á Rauðsgili. Þessi vestari leið er nokkru lengri en hin eystri.

29,3 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kaldidalur, Norðlingafljót, Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Reyðarvatn, Rauðsgil, Húsafell.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH