Ölæði er viðurkennd hegðun

Greinar

Reykjavík mun áfram verða illræmd af ófagurri framkomu fólks að næturlagi um helgar. Austurvöllur mun áfram verða hættulegri en Dam og Kongens Nytorv, Times Square og Leicester Square. Máttarvöld ríkis og borgar hafa ákveðið, að ástandið verði óbreytt.

Engin merki eru um, að hér verði farið að með svipuðum hætti og gert hefur verið í borgum á borð við Amsterdam og New York til að tryggja borgurum og ferðamönnum óáreitta göngu um miðborgir. Leiðirnar til þess eru þekktar, en þeim verður ekki beitt hér.

Afstaða máttarvalda á borð við dómsmálaráðuneyti, lögreglustjóraembætti og borgarstjórn byggist á útbreiddum skorti meðal þjóðarinnar á tilfinningu fyrir því, hvað sé ósæmileg hegðun. Því miður er ölæði viðurkennd hegðun á íslenzku almannafæri.

Miklir hagsmunir eru einnig í húfi, innlendir sem erlendir. Mjög öflugir eru þeir, sem hafa hag af sölu og dreifingu áfengis. Þeir ráða til dæmis ferðinni í Verzlunarráði. Þeir stefna að auðveldari sölu og dreifingu áfengis sem þáttar í auknu viðskiptafrelsi hér á landi.

Erlendar rannsóknir sýna, að aukið framboð áfengis eykur neyzlu þess og hin margvíslegu vandræði, sem fylgja henni, svo sem slys og sjúkdóma, skemmdir og vinnutap. Fleiri knæpur og fleiri útsölur og fleiri auglýsingar valda auknum áfengisvandamálum.

Þrátt fyrir þetta verður frelsið aukið. Sumpart er það vegna þrýstings frá útlöndum, einkum frá Evrópusambandinu. Sá mikli kontór hefur að einu meginhlutverki sínu að gæta hagsmuna vesturevrópsks landbúnaðar, sem rekur gífurlega offramleiðslu á víni og áfengi.

Svíar hafa rekið sig á, að sjónarmið hollustu og heilsugæzlu mega sín lítils, þegar hagsmunir offramleiðslunnar ryðjast fram í skjóli hugsjóna frjálsrar verzlunar. Vegna aðildar sinnar að evrópsku samstarfi neyðast þeir til að fara að liðka lög um dreifingu og sölu áfengis.

Hér á landi eru hagsmunaaðilar í þann mund að brjóta á bak aftur bann við auglýsingum áfengis. Þeir veifa ennfremur hótunum um málaferli fyrir evrópskum dómstólum, ef ekki verði auðveldað aðgengi fólks að áfengi. Einkavæðing áfengisverzlunar er líkleg.

Hin ytri skilyrði stuðla þannig ekki að hnignun áfengisvandamála Íslendinga. Við komumst ekki hjá því að horfast í augu við þjóðarbölið sjálft. Það felst í, að hér á landi er þjóðfélagslega viðurkennt, að menn megi láta sjást á sér, að þeir séu undir áhrifum áfengis.

Þar sem sterkar félagslegar skorður eru við áfengislegri hegðun í útlöndum fá unglingar og ungt fólk allt önnur skilaboð frá umhverfinu en hér á landi. Á meginlandi Evrópu er ekki talið fínt að veltast um í spýju sinni, létta af sér á þinghúsdyr, góla og garga.

Ef máttarvöld þjóðfélagsins fengjust til að lýsa yfir neyðarástandi og kalla út öryggissveitir til að hreinsa miðborg Reykjavíkur að næturlagi, væri stigið fyrsta skrefið í þá átt að senda ný skilaboð til ungra og aldinna um, að ölæði sé ekki lengur viðurkennd hegðun.

Í útlöndum eru foreldrar látnir sækja börn sín á lögreglustöðvar og sektaðir, ef um ítrekuð mál er að ræða. Í útlöndum eru menn umsvifalaust sektaðir fyrir að kasta af sér vatni og fleygja rusli á götur. Þar er framfylgt banni við útivist barna á kvöldin.

Samanlögð áhrif slíkra aðgerða fela í sér byltingu. Í New York hefur morðum fækkað um 40%. Stórglæpir hjaðna, þegar tekið er á ölæði almennings.

Jónas Kristjánsson

DV