Olían lækkar enn

Greinar

Olíuframleiðsluríkjunum í Opec-samtökunum hefur enn einu sinni mistekizt að ná samkomulagi um minnkun framleiðslu. Þar með er orðið ljóst, að olíuverð hækkar ekki í bráð. Raunar er fremur búizt við, að verðið fari um skeið niður fyrir tíu dollara á tunnuna.

Þetta eru að sjálfsögðu góðar fréttir fyrir olíuinnflutningsríki eins og Ísland. Við höfum þegar notið góðs af olíuverðhruni síðasta vetrar, þegar olían fór úr rúmlega 30 dollurum niður fyrir 20 dollara. Þetta verð hrun var lykill að kjarasamningunum í febrúar.

Almenningur hefur helzt orðið þessa var í lækkuðu bensínverði. Að vísu hefur sú lækkun ekki endurspeglað til fulls allt olíuverðhrunið, af því að hin opinberu gjöld vega mjög þungt í bensínverði. En bensínið hefur þó lækkað og hagur almennings batnað.

Í rauninni hafa allar samgöngur orðið ódýrari. Skip, bílar og flugvélar nota ódýrara eldsneyti en áður. Þar að auki hafa ýmsar hliðarafurðir orðið ódýrari. Efniskostnaður við lagningu bundins slitlags á þjóðvegi landsins hefur til dæmis lækkað um helming.

Fiskveiðiflotinn ætti að geta notið góðs af lækkuninni eins og samgöngutækin. Í því ætti að felast mikilvægasti ávinningur þjóðarinnar af lækkuðu olíuverði úti í heimi. En gasolíuverðið hefur því miður lækkað allt of lítið og tregt hér á landi.

Því er ekki að leyna, að búast hefði mátt við meiri hagsbótum. Nauðsynlegt er, að vel sé vakað yfir olíukaupum landsmanna og skoðað rækilega, hvort við njótum til fulls hinnar miklu lækkunar úti í heimi. Ástæða er til að ætla, að svo sé ekki.

Til dæmis er ótrúlegt, að flugfélög þurfi 8% hækkun á fargjöldum í innanlandsflugi, ef verð á flugvélabensíni hefði lækkað eins mikið hér á landi og það hefur gert í öðrum löndum. Eðlilegt væri að ætla, að fargjöldin ættu fremur að geta lækkað.

Eldsneyti á að vera keypt til landsins á svokölluðu Rotterdamverði. Það verð hefur undanfarna mánuði endurspeglað vel lækkun hráolíuverðsins. Mörgum finnst, að það hefði átt að endurspeglast betur hér á landi í hraðari og meiri verðlækkunum.

Þegar hráolía lækkar úr 30 dollurum niður í 10 dollara, er eðlilegt að búast við verulegum lækkunum hér. Stjórnvöld ættu að athuga, hvort ekki sé allt með felldu á þessu sviði. Skýringar kunna að vera til. Þá er bezt, að þær komi fram og verði öllum aðgengilegar.

Ef okkur tekst að njóta olíuverðlækkunarinnar til fulls, ætti innkaupareikningur þjóðarinnar að geta lækkað um tvo eða þrjá milljarða króna á ári. Það er ekki lítil upphæð. Stærðargráðan er svipuð og hinn árlegi halli á ríkisbúskapnum nú á tímum.

Sérfræðingar reikna með, að olíuverðfallið muni staðnæmast við tíu dollara markið, þótt brezk olía hafi nýlega farið niður í níu dollara. Við svo lágt verð fer að draga að lokun óarðbærra olíulinda og samdrætti í framleiðslu. Tíu dollararnir eru raunhæft lágmark.

Við eigum, eins og aðrir olíukaupendur, að geta notið lágs olíuverðs í nokkur misseri, jafnvel nokkur ár. En um síðir mun verðið stíga að nýju, af því að olía er takmörkuð auðlind, sem hlýtur að verða dýr um síðir, þegar eftirspurnin fer að nýju fram úr framboðinu.

Á meðan hefur þessi gamla verðbólguþjóð tíma og tækifæri til að festa í sessi hið stöðuga verðlag, sem er mikilvægasta afleiðing olíuverðlækkunarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV