Ólíkindalæti út úr kú

Greinar

Forsætisráðherra hefur upplýst, að markmið svokallaðs GATT-samnings hafi ekki verið að lækka vöruverð og bæta hag neytenda. Slíkt sé einhver misskilningur, sem hafi komizt á flot, af því að fjölmiðlar og nokkrir kaupmenn hafi búið til ástæðulausar væntingar.

Þetta er með sérstæðari söguskýringum síðari áratuga. Við sjáum fyrir okkur, að umboðsmenn ríkisstjórna heimsins hafi í algeru tilgangsleysi verið árum saman að reyna að berja saman samkomulag á vegum GATT og stofna upp úr því ný heimsverzlunarsamtök, WTO.

Samkvæmt skýringu forsætisráðherra virðist markmið þessarar miklu vinnu hafa verið að útvega embættismönnum tækifæri til ferðalaga og langdvala í útlöndum vegna samningaviðræðna um GATT-samninginn, það er að segja að búa til forsendur ferðakostnaðarreikninga.

Íslenzkir skattgreiðendur og neytendur segja fátt og virðast sáttir við söguskýringu forsætisráðherra. Ef til vill finnst okkur eðlilegt, að varið sé milljörðum króna út í loftið til að búa til samning, sem ekki á að hafa neitt þjóðhagslegt gildi fyrir aðildarríki samningsins.

Hitt er líklegra, að fólk viti, að ráðherrann var með ólíkindalæti án þess að honum stykki bros á vör, og sé nokkuð ánægt með það, af því að það sé viðurkennd umgengni leiðtoga lífs okkar við raunveruleikann, allt frá Jónum Prímusum bókmenntanna yfir í landsfeðurna.

Annað nýlegt dæmi um, að ráðherra tali af ástettu ráði út í hött, fólst í ummælum samgönguráðherra um, að illfærir stígar svonefndrar upplýsingahraðbrautar á Íslandi væru raunhæfar og fullnægjandi hraðbrautir á því sviði. Hann var kaldur karl og komst upp með það.

Þrátt fyrir söguskýringu forsætisráðherra fólst markmið í GATT-samningnum. Með honum átti að minnka hömlur á milliríkjaviðskiptum í áföngum til að bæta hag þjóða heims. Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar af alefli reynt að koma í veg fyrir þetta.

Með GATT-samningnum átti fólk að fá aðgang að ódýrari vörum til að lækka rekstrarkostnað sinn. Þetta gildir jafnt um almenning, fyrirtæki og heilar þjóðar. Þetta átti um leið að bæta samkeppnisaðstöðu þjóða á þeim sviðum, þar sem sérhæfing þeirra er vænlegust.

Við kunnum að meta þessa hugsun, þegar við viljum, að erlend ríki hleypi íslenzkum sjávarafurðum tolla- og hindrunarlaust inn fyrir sínar dyr. Við viljum hins vegar ekki nýta okkur hina hliðina með því að hleypa erlendri matvöru tolla- og hindrunarlaust inn fyrir okkar dyr.

Það er alls ekki svo, að innflutningsfrelsi sé eins konar greiðsla okkar fyrir útflutningsfrelsi. Við græðum nefnilega ekki minna á að veita erlendri vöru innflutningsfrelsi en á því að fá útflutningsfrelsi fyrir íslenzka vöru. Þetta er viðurkennd hagfræði GATT-samningsins.

Flestar ríkisstjórnir eru hallar undir þrönga sérhagsmuni, einkum innlendan landbúnað. Til þess að vernda þessa þröngu sérhagsmuni gegn almannahagsmunum var ákveðið að hafa samninginn í áföngum, svo að landbúnaður hvers lands fengi nokkurn aðlögunartíma.

Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar sett hemlana á fullt og sýnt mikla útsjónarsemi við að hindra, að þjóðin fengi neitt út úr GATT-samningnum. Fyrsta skrefið hefur því ekki lækkað vöruverð á Íslandi, heldur þvert á móti hækkað verð á nokkrum innfluttum landbúnaðarvörum.

Íslenzkir kjósendur vilja láta kvelja sig, eru ánægðir með þessa útsjónarsemi og hafa enn meira traust á leiðtoga sínum, þegar hann hefur talað eins og út úr kú.

Jónas Kristjánsson

DV