Fréttir þessarar viku benda til, að sjávarútvegurinn sé að herða sóknina inn í frelsið og hyggist styrkja stöðu sína sem hornsteinn þjóðfélagsins, en að landbúnaðurinn sé að draga sig lengra inn í eitraða skel Framleiðsluráðs og vilji verða jafnvel enn meiri baggi en áður.
Útgerðarmenn og sjómenn sömdu við loðnuverksmiðjur um, að frjáls markaður yrði á loðnu í tilraunaskyni í einn mánuð. Þetta er drjúgt skref að markmiði, sem margir hafa hvatt til: Að komið verði á fót innlendum fiskmarkaði, er leysi verðlagsráð af hólmi.
Á sama tíma gerðu forustumenn hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda harða hríð til að sannfæra eggja-, kjúklinga- og svínabændur um, að þeim yrði bezt borgið í náðarfaðmi Framleiðsluráðs, þar sem boðið er upp á búmark til að geta okrað á neytendum.
Gæludýr Framleiðsluráðs í þessari viðleitni hefur í rúm tvö ár verið eggjadreifingarstöðin Ísegg. Hún var stofnuð með gjafafé úr sjóðum, sem ráðamenn hins hefðbundna landbúnaðar hafa yfir að ráða og myndaðir hafa verið úr hagnaði af okri á neytendum.
Ísegg átti að taka við allri eggjadreifingu í landinu. En stóru framleiðendurnir með hagkvæmu og ódýru framleiðsluna neituðu að leggjast í náðarfaðminn. Þeir hafa haldið áfram að sjá um sína flokkun og dreifingu og selt neytendum á hvaða lágu verði, sem þeim þóknast.
Á sama tíma hefur gæludýr Framleiðsluráðs spillt tannfé sínu, enda rekið í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Dreifingarkostnaður er 20 krónur á kíló, langtum meiri en annarra. Bændur hafa ekki fengið greitt fyrir egg í heila þrjá mánuði. Gjaldþrot blasir við.
Nú hyggst Framleiðsluráð þvinga bændur inn í kerfi, þar sem öllu er stjórnað af gífurlega háu fóðurgjaldi, er endurgreiðist að hluta samkvæmt búmarki, sem sett verður til höfuðs stórbændunum, og að hluta verður lagt í sjóði til að gefa fé í gæludýr á borð við Ísegg.
Jafnan hefur verið auðvelt að fá óhagkvæma framleiðendur til að kvarta yfir svokölluðum undirboðum hinna, sem kunna til verka og geta boðið neytendum upp á tiltölulega ódýra vöru. Í hvert sinn, sem orðið “undirboð” er nefnt, ber neytendum að gæta sín.
Hafa má til marks um eymd neytenda og skort þeirra á samtakamætti, að Neytendasamtökin hafa ekki látið þetta mál til sín taka, svo tekið hafi verið eftir. Er það í stíl við almennt viðbragðsleysi þeirra gagnvart sífellt endurteknum árásum af hálfu Framleiðsluráðs.
Bjartari eru fréttir vikunnar úr sjávarútvegi. Þar samþykktu málsaðilar einróma að gera tilraun, sem getur leitt til mikilla framfara. Í einn mánuð verður loðnuverð ekki ákveðið með valdi að ofan, heldur fer eftir, hvernig kaupin gerast á eyrinni hverju sinni.
Málsaðilar vona, að þetta leysi erfiðan verðlagningarvanda í loðnu einni saman. En einnig eru menn að kanna, hvort ekki sé hægt að koma á fót almennum fiskmarkaði eins og er nánast alls staðar í útlöndum. Þar hlaupa prísarnir upp og niður og gæðin hríðvaxa.
Spáð hefur verið, að sjávarplássin, sem fyrst verða til að afla sér fiskmarkaðar af þessu tagi, muni blómstra umfram önnur. Þau muni soga til sín landanir og viðskipti með fisk. Hin sjávarplássin muni staðna og hugsanlega heltast um síðir úr lestinni.
Í baráttunni um fiskmarkað og búmark takast á nútíð og fortíð. Í fyrra tilvikinu sótti hagkvæmnin fram í síðustu viku, en í hinu síðara blés óhagræðið til sóknar.
Jónas Kristjánsson
DV