Ólíkt hefst hann að

Greinar

Annars vegar lætur Reagan Bandaríkjaforseti varpa sprengjum að hávaðasömum meinleysingja, sem er við völd í smáríkinu Líbýu. Hins vegar fer hann í opinbera heimsókn til eins mesta fjöldamorðingja og rummungsþjófs, sem uppi er nú á tímum, Suhartos í Indónesíu.

Þetta dæmi gengur engan veginn upp. Að baki hinna tveggja ólíku aðgerða forsetans er grófur tvískinnungur og skortur á siðrænu mati, sem skaðar málstað vestrænna ríkja, eins og svo margt annað, sem þessi forseti hefur gert og sagt á erlendum vettvangi.

Indónesía skiptir töluverðu máli fyrir umheiminn, því að það er fimmta fjölmennasta land veraldar, óvenju auðugt að málmum, olíu og timbri. Þar hefur í tvo ára tugi ráðið ríkjum valdaræningi úr stétt herforingja, stórum hættulegri umhverfi sínu en Kaddafi.

Á ferli sínum í Indónesíu hefur Suharto látið slátra um 300 þúsund íbúum landsins. Tugir þúsunda pólitískra fanga hírast í fangabúðum og útlegð án dóms og laga, sumir í meira en áratug. Pyndingum er meira beitt í Indónesíu en flestum öðrum löndum heims.

Þá hefur Suharto stundað útþenslustefnu með hræðilegum afleiðingum fyrir nágrannaþjóðirnar. Hann gerði innrás á eyjuna Timor fyrir einum áratug og hefur síðan látið koma fyrir kattarnef 200.000 af 600.000 íbúum eyjarinnar. Þar eru ofsóknirnar óvenju ógeðfelldar.

Bæði Timor og Irian, sem Indónesía sölsaði áður undir sig, eru vettvangur pyndinga, skipulagðrar eyðileggingar menningar og þjóðhátta, og annarra ofsókna af hálfu hins illræmda hers Suhartos. Þetta framferði er með svartari blettum á mannkyninu.

Að þessu leyti má skipa Suharto í fylkingu mestu ógæfumanna aldarinnar, með Pol Pot, Hitler og Stalín. En hann er líka einn mikilvirkasti þjófur nútímans, hefur mergsogið þjóð sína, er hálfdrættingur á við Marcos, sem nýlega var hrakinn frá Filippseyjum.

Stjórnkerfi Indónesíu er talið eitt hið spilltasta í heimi. Ástralíumaður hefur skrifað afar fróðlega doktorsritgerð um, hvernig kona Suhartos, börn þeirra, bræður hans og aðrir nánustu vinir og ættingjar hafa rakað saman fé með því að misnota valdaaðstöðu sína.

Marcos er talinn hafa stolið sem svarar 200­400 milljörðum íslenzkra króna. Suharto er talinn hafa komizt upp í 80­120 milljarða íslenzkra króna. Marcos hefur nú glatað völdum, en Suharto er fastari í sessi en nokkru sinni fyrr og baðar sig í sól Bandaríkjaforseta.

Þegar Reagan var að búast til ferðar til að heilsa upp á Suharto, birti ástralskt blað yfirlit um þjófnað Indónesíuforseta og spillingu stjórnar hans. Í hefndarskyni var hinum áströlsku blaðamönnum, sem voru í föruneyti forsetans, vísað umsvifalaust til baka.

Þetta olli forseta Bandaríkjanna auðvitað töluverðum óþægindum. En hann lét sig hafa það að halda áfram hinni opinberu heimsókn eins og ekkert hefði í skorizt. En áróðursherferðin, sem Suharto hafði skipulagt gagnvart fjölmiðlum, fór blessunarlega út um þúfur.

Dæmigert fyrir Suharto er, að hann hefur óbeit á upplýsingum. Fréttamenn eiga erfitt með að komast inn í landið, þá aðeins til skamms tíma og er vísað úr landi af minnsta tilefni. Þannig hefur hann reynt að koma í veg fyrir alþjóðlegt umtal um glæpi sína.

Eitt er að veita slíku fóli aðstoð, sem nemur um 80 milljörðum íslenzkra króna. En að heimsækja það þar á ofan opinberlega, tekur út yfir allan þjófabálk.

Jónas Kristjánsson

DV