Ólíkt höfumst við að

Greinar

Flokksmennska er ein tegund blaðamennsku, sem var útbreidd fyrir mörgum áratugum, en er nú horfin að mestu. Helzt eimir eftir af henni hjá Ríkisútvarpinu, þar sem yfirmenn eru þá aðeins ráðnir, að þeir hafi flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins upp á vasann.

Vændismennska er þeim mun meira stunduð og gætir ýmissa sérhagsmuna úti í bæ. Mest er hún stunduð á sértímaritum, til dæmis þegar tímarit birtir viðtöl við bókarhöfunda eigin forlags en ekki annarra. Sjónvarpsstöðvar birta slíkt efni, m.a. frá auglýsingastofunni Zink.

Leigumennska hefur lengi verið öflug hér á landi. Hún er einkum rekin á auglýsinga- og kynningarstofum blaðamanna, sem taka að sér að sjá um fjölmiðlasamskipti fyrir stofnanir, samtök og fyrirtæki og reyna að nota gömul sambönd sín inni á ritstjórnum alvörufjölmiðla.

Kostunarmennska hóf innreið sína með sjónvarpi. Stofnuð hafa verið blaðamennskufyrirtæki, sem fá hagsmunaaðila til að fjármagna þætti, er fjalla um efni, sem skiptir miklu fyrir sama hagsmunaaðilann, hvort sem það eru samtök útvegsmanna eða ríkisstjórnin.

Sölumennska hefur ótal myndir í fjölmiðlun. Skemmtileg tegund er stunduð á Strik.is, þar sem snarlega eru birtir ritdómar, eingöngu ákaflega jákvæðir, um bækur í tæka tíð, svo að tilvitnanir í miðilinn komist í auglýsingar bókaútgefenda og auglýsi miðilinn um leið.

Kranamennska hefur lengi verið mikið stunduð og efldist mjög við tilkomu sjónvarpsviðtala. Hún felst í að skrúfa frá einu sjónarmiði, en ekki öðrum. Þessi tegund hefur gengið í endurnýjun lífdaganna með tölvupósti, sem auðvelt er að klippa og líma á síður.

Kjaftamennska er í mikilli tízku um þessar mundir, enda ódýrt og vel þegið sjónvarpsefni, sérstaklega ef hinir málglöðu geta verið skemmtilegir á köflum. Efni skemmtikraftanna er ekki fróðlegt, en drepur tíma nútímafólks, sem skjárinn hefur tekið í gíslingu.

Frægðarmennska er skyld atvinnugrein. Hún felst í að taka frægt fólk og láta það leika hlutverk blaðamanna. Þetta þjónar persónuáhuga gíslanna við sjónvarpsskjáinn og getur framleitt kostuleg viðtöl, þar sem alls engar upplýsingar koma fram, er neinu máli skipta.

Kynóramennska er sérhæfð hliðargrein í bransanum. Hún þjónar kynórum ungra stráka, sem eru ekki komnir í færi og hefur að markmiði að mynda inn í klofið á nafngreindum stúlkum íslenzkum. Höfundarnir telja, að strákarnir verði með þessu til friðs í þjóðfélaginu.

Kíkismennska myndar fræga fólkið og hrópar upp yfir sig: Sjáið fínu kjólana, sjáið sætu stúlkurnar, sjáið flottu pörin! Allt fræga fólkið er ofsalega hamingjusamt á myndunum. Samkvæmt könnunum nýtur þessi blaðamennska mikils trausts og hæfir þar skel kjafti.

Í öllum þessum tíu ofangreindu hornsteinum nútímans ríkir áhugi á velferð venjulegrar og hefðbundinnar blaðamennsku og áhyggjur af, að hún fari “yfir strikið” í rannsóknum sínum á ýmsu því, sem aflaga fer í hinu fullkomna ímyndarþjóðfélagi hornsteinanna.

Venjuleg og hefðbundin blaðamennska er fyrirferðarlítil innan um alla þessa fjölbreytni sérhæfingarinnar, enda þykir ekki fínt að grafast fyrir um staðreyndir og birta þær, jafnvel hinar óþægilegu. Hún er ekki eitt af tízkufyrirbærum ímyndarþjóðfélags nútímans.

Eðlilegt er, að sú blaðamennska, sem ein skiptir máli, sé undir smásjá ofangreindra tíu hornsteina þjóðfélagsins, sem eru bara að vinna fyrir kaupinu sínu

Jónas Kristjánsson

DV