Ný lota er hafin í friðarviðræðum til lausnar landhelgisdeilu Íslendinga og Breta- Lotan hófst í gærkvöldi í Kaupmannahöfn paeð skyndifundi Einars Ágústssonar utanríkisráðherra og Josef Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Í dag og á morgun er haldinn í Höfn utanríkisráðherrafundur bandalagsins og má fastlega reikna með því, að frekari einkaviðræður um málið fari fram í fundarhléum.
Átlantshafsbandalagið hefur tekið landhelgisdeiluna upp á sina arma. Luns hefur reynt að hafa frumkvæði að sáttatilraunum og mun ósleitilega vinna að þeim þessa daga í Kaupmannahöfn. Honum er ljóst eins og öðrum forráðamönnum bandalagsins, að það getur ekki gengið, að herskipum sé beitt í deilu milli tveggja bandalagsþjóða.
Fleiri menn munu taka að sér hlutverk sáttasemjara í Kaupmannahöfn. William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun eiga einkaviðræður bæði við Einar Ágústsson og sir Alec, utanríkisráðherra Bretlands. Hann mun áreiðanlega hvetja Einar til að taka fullt tillit til mikilvægis eftirlitsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli fyrir öryggi Vesturlanda. Og hann mun ekki leggja minni áherzlu á að hvetja sirAlec til að láta þorskastríðið ekki koma niður á hagsmunum Atlantshafsbandalagsins.
Sir Alec á erfiða daga í Kaupmannahöfn. Hann verður í varnaraðstöðu í viðræðunum við Luns og Rogers. Það er næsta ósennilegt, að hann hafi á takteinum sannfærandi skýringar á því, hvers vegna Bretar stofna einingu Atlantshafsbandalagsins í hættu með aðgerðum sínum gagnvart Íslendingum.
Allir vita þessir menn, að sir Alec er ekki að gæta hagsmuna brezkra húsmæðra. Hann er aðeins að gæta mjög tímabundinna og mjög þröngra hagsmuna togaraútgerðarinnar við Humber-fljót. Þar á ofan vofir hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna eins og Damoklesarsverð yfir höfði hans.
Sir Alec verður líka að mæta gagnrýni K. B. Andersen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Dagfinns Vaarvik, utanrikisráðherra Noregs. Þeir munu báðir leggja áherzlu á fyrri yfirlýsingar um, að Bretar verði að kalla herskip sín úr 50 mílna landhelginni, svo að samningaviðræður geti hafizt að nýju milli Íslendinga og Breta.
Um afstöðu utanríkisráðherra annarra ríkja bandalagsins er litið vitað. Ljóst er þó, að þeir harma, að Bretar skuli með herskipaleik sínum hafa komið bandalaginu í óþægilega klípu. Það standa þvi öll járn á sir Alec þessa dagana.
Allur þessi þrýstingur sýnir, hve mikið gagn Íslendingar hafa af veru sinni í Atlantshafsbandalaginu. Bretar væru áreiðanlega grófari, ef við værum ekki í bandalaginu og þeir þyrftu ekki að svara til saka á vettvangi þess.
Hins vegar er það óhófleg bjartsýni að búast við því, að þrýstingur vinaþjóða okkar í bandalaginu og embættismanna þess leiði til skjótrar úrlausnar. Svona mál þurfa yfirleitt að gerjast um nokkurn tíma. Sir Alec lætur ekki undan í fyrstu atrennu. En málið er í góðum höndum hjá Atlantshafsbandalaginu og dropinn holar steininn.
Jónas Kristjánsson
Vísir