Fram eftir tuttugustu öldinni skilgreindu tunga og saga okkur sem þjóð og voru hornsteinn tilveru okkar. Þetta var okkur innprentað í kennslubókum, einkum Íslandssögu Jónasar frá Hriflu, eindregið stutt af flestum, sem telja mátti til menningarvita og athafnamanna.
Þegar leið á öldina, fóru þessi tengsl að dofna, meðal annars vegna framfara og auðsældar í landinu. Íslendingar fóru að trúa á mátt sinn og megin og töldu sig margir hverjir ekki þurfa hækjur úr fortíðinni. Þjóðernislegt rótleysi var fylgifiskur breytinganna.
Nú við aldarlok hefur snögglega aftur komizt á eins konar ómeðvitað samkomulag menningarvita og athafnamanna um, að þjóðin hafi hornstein. Þennan hornstein finna þeir í ósnertri náttúru hálendisins, sem tekið hefur á sig dulúðugan helgiljóma landvættanna.
Ein birtingarmynd þessa samkomulags er fyrirhafnarmikill gerningur listamanna, sem settu niður texta fyrsta erindis þjóðsöngsins, greyptan í steina, á fyrirhuguðu stíflusvæði Eyjabakkalóns. Á táknrænan og myndrænan hátt voru Eyjabakkar teknir í fóstur þjóðarinnar.
Vel stæðir athafnamenn standa nú fyrir söfnun tugþúsunda undirskrifta, studdir þekktustu nöfnum þjóðarinnar. Nánast allir vilja skrifa undir, nema þá bagi austfirzkur uppruni eða flokkspólitískur tilvistarvandi. Þjóðin hefur sameinazt í stuðningi við óséð landsvæði.
Ferðahópar hálendisins styðja hin ósnortnu víðerni, hvort sem þeir fara þangað í flugvélum eða jeppum, vélsleðum eða hestum eða bara á eigin fótum. Þessir afar ólíku ferðahópar eiga fátt annað sameiginlegt en tilfinninguna fyrir dularmagni íslenzkra óbyggða.
Einn maður stendur öðrum fremur að baki þessara nýju viðhorfa. Það er Ómar Ragnarsson fréttamaður, sem hefur í heilan áratug verið að sýna okkur hálendið og lýsa því fyrir okkur á tungumáli, sem flestir skilja, hvar í framangreindum hópum sem þeir standa.
Sífelldar ferðasögur Ómars hafa síazt inn í þjóðarvitundina. Hann hefur ekki verið að prédika neitt, bara verið að rabba við fólk á máli, sem það skilur. Frásögn hans hefur í vaxandi mæli einkennzt af djúpri virðingu fyrir óbeizluðum krafti og fagurri birtu íslenzkra öræfa.
Nýútkomin bók Ómars, Ljósið yfir landinu, gefur okkur samþjappaða innsýn í áhrifamátt frásagna hans, allt frá tæknilegum smáatriðum ferðamennskunnar yfir í lýsingar hans á fegurð og ógn hinnar ósnortnu víðáttu. Fornir landvættir eru þar hvarvetna á stjái.
Ómar hefur ekki einn og óstuddur breytt grundvallarsjónarmiðum Íslendinga og fært okkur nýjan hornstein, nýja viðmiðun. Margir hafa átt hlut að máli. En þáttur Ómars er langsamlega stærstur. Hann er aldamótamaður nútímans og eins konar spámaður nýrrar aldar.
Seint og um síðir hafa gæzlumenn úreltra hagsmuna í ríkissjónvarpi Sjálfstæðisflokksins áttað sig á, hversu hættulegur er spámaðurinn. Vinsæl sjónvarpsþáttaröð Ómars um þjóðgarða og víðerni í Bandaríkjunum og á Íslandi hefur því verið fryst í miðjum klíðum.
Vegna fréttaþátta Ómars erum við farin að átta okkur á, að við eigum ekki Eyjabakka og getum ekki veitt Alþingi umboð til að fara með slíkt eignarhald. Eyjabakkar eru eign ófæddra afkomenda okkar. Hlutverk okkar er það eitt að skila þeim ósnortnum til framtíðarinnar.
Eftir tímabil rótleysis getum við aftur skilgreint okkur. Nú eru það landvættir, er hafa tekið við hlutverki, sem hafði reynzt vera tungu og sögu um megn
Jónas Kristjánsson
DV