Ömurleg áætlun.

Greinar

Við birtingu lánsfjáráætlunar ríkisins hefur sannazt, sem hér hefur verið haldið fram, að gatið á fjármálum þess verður ekki hálfur eða heill milljarður á næsta ári. Gatið verður hálfum þriðja milljarði stærra eða samtals annaðhvort þrír eða hálfur fjórði milljarður.

Samkvæmt lánsfjáráætlun hyggst ríkið og stofnanir þess taka að láni átta milljarða og endurgreiða fimm. Mismunurinn nemur þremur milljörðum. Og samkvæmt síðustu fréttum af gati sjálfs fjárlagafrumvarpsins er það vanmetið um hálfan milljarð, svo að heildargatið verður þrír og hálfur.

Hinn hálfi níundi milljarður, sem tekinn verður að láni á næsta ári, skiptist þannig : Í A-hluta fjárlaga 1.861 milljón, í B-hluta 1.288, hjá fyrirtækjum ríkisins 1.800, hjá húsbyggingarsjóðum ríkisins 1.558, hjá gæludýrasjóðum ríkisins 1.372 og um 500 milljónir í vanmatinu.

Til að sýna, hversu rosalegar þessar tölur eru, má nefna til samanburðar, að lántökur sveitarfélaga eru áætlaðar 153 milljónir og alls atvinnulífsins í landinu 1 .836 milljónir. Allar eru þessar tölur úr lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar frá því í fyrradag.

Í þessari áætlun næsta árs kemur fram einstök bjartsýni um, að hægt verði að afla innanlands hálfs þriðja milljarðs króna í lánsfé. Tilraunir ríkisstjórnarinnar til að draga úr raunvöxtum og gera þá öfuga gefa þó ekki mikla von um almennan sparnað fólks á næsta ári.

Til dæmis gerir áætlunin ráð fyrir, að innheimta og innlausn spariskírteina ríkisins standist á næsta ári þótt hlutfallið í ár hafi verið neikvætt fyrir ríkið um 500 milljónir. Bauð ríkið þó innleysendum upp á töluvert háa raunvexti á þessu ári eða 8%.

Ennfremur gerir áætlunin ráð fyrir, að lífeyrissjóðir þjóðarinnar láni 1.220 milljónir til húsnæðislánakerfis ríkisins, þótt þeir hafi í ár aðeins lánað ríkinu 430 milljónir til þessara nota. Draga verður í efa, að ríkinu takist að ná innanlands öllu þessu fé.

Ofan á þann innlenda sparnað, sem ríkið dreymir um, telur það sig þurfa 7.300 milljónir í löngum erlendum lánum og 1.200 í stuttum erlendum lánum. Við þessar tölur bætist 500 milljóna vanmatið á fjarlagagatinu og loks ótilgreint ofmat á innlendri öflun lánsfjár.

Um þessar mundir nema erlendar skuldir þjóðarinnar 42.660 milljónum og þjóðarframleiðsla ársins er að verða 67.300 milljónir, hvort tveggja samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar. Þar með eru erlendar skuldir þjóðarinnar komnar upp í 63,4%. þjóðarframleiðslunnar.

Hið stórfenglega gat á fjármálum ríkisins, stofnana þess, fyrirtækja og sjóða, svo og ráðagerðirnar um stórfelld lán í útlöndum eru skref til hækkunar erlendra skulda upp fyrir 63,4% þjóðarframleiðslu og til hækkunar erlendrar skuldabyrði upp fyrir 23% útflutningsverðmætis.

Sem eitt hrikalegt dæmi um, hvernig ráðgert er að sóa þessum mikla fjáraustri, má nefna, að lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir eins milljarðs króna fjárfestingu í landbúnaði á næsta ári, aðallega í hinum hefðbundna landbúnaði, sem framleiðir afurðir, er ekki finnast að neinir kaupendur.

Þegar milljarður er fjárfestur til að fá að borga árlega meira en milljarð í útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur, er ekki við því að búast, að milljarður finnist í nýjar atvinnugreinar. Þannig er lánsfjáráætlunin ömurlegt rugl, alveg eins og fjárlagafrumvarpið.

Jónas Kristjánsson.

DV