“Ónákvæmir” og yfir aðra hafnir

Greinar

Bankaráð Landsbanka Íslands hefur lýst yfir, að fyrra svar bankans um laxveiðikostnað hans hafi verið “ekki nægjanlega nákvæmt”. Bankaráðið metur það til skorts á nákvæmni, að laxveiðikostnaðurinn reyndist vera rúmlega tvöfalt hærri en logið hafði verið.

Bankaráð, er flokkar muninn á rúmum 18 milljónum króna og tæpum 42 milljónum sem “skort á nákvæmni”, er ekki líklegt til að bregðast við málinu á eðlilegan hátt. Það mun láta bankastjórana biðjast afsökunar og halda síðan áfram að tapa milljörðum í afskrifuð útlán.

Nýjasta uppljóstrun Ríkisendurskoðunar um sukk í Landsbankanum kemur til viðbótar því, sem áður var vitað um óheyrilegan lífsstílskostnað stjórnenda bankans og um kaup bankans á laxveiðileyfum hjá langfrægasta bankastjóra landsins á síðustu árum.

Að ósk bankaráðsins er Ríkisendurskoðun nú að rannsaka allan risnu-, ferða- og bílakostnað bankans á sama fjögurra ára tímabilinu og laxveiðirannsóknin náði til, það er áranna 1994­1997. Bankaráðið hyggst taka ákvörðun um framhald málsins að því loknu.

Boltinn er í höndum bankaráðsins, sem ræður og rekur bankastjóra. Torséð er, að ráðið geti áfallalaust komið sér undan að víkja þeim öllum úr starfi, þótt ekki bætist við fleiri afreksverk en þau þrjú, sem þegar eru komin í ljós, sukk, lygi og misnotkun á aðstöðu.

Sukkið felst í stærðargráðu peninganna, sem eru til umræðu í málinu. Lygin felst í því, sem bankaráðið kallar ónákvæmni. Og misnotkun aðstöðu felst í kaupum bankastjórans fræga á veiðileyfum á kostnað bankans í á, sem hann leigir sjálfur út með félögum sínum.

Aðgerðir bankaráðherrans hljóta síðan að byggjast á mati hans á því, hvort viðbrögð bankaráðsins verði of væg eða ekki. Ef það lætur bankastjórana ekki víkja, tekur það alla ábyrgðina á sínar herðar, þannig að ráðherrann verður þá að láta ráðið taka afleiðingunum.

Við mat bankaráðsins á alvöru málsins bætist svo, að sumir ráðsmenn voru í ráðinu á þeim tíma, sem rannsóknin spannar. Þeir bera því ekki aðeins ábyrgð á eftirmeðferð málsins um þessar mundir, heldur bera þeir með bankastjórunum ábyrgð á afrekaskránni allri.

Þegar málið kemur á borð bankaráðherrans ber honum því ekki aðeins að meta viðbrögð núverandi bankaráðs við afrekum bankastjóranna árin 1994­1997, heldur einnig að meta, hvort framlengdir bankaráðsmenn verði að víkja vegna aðildar að afrekunum sjálfum.

Landsbankinn hefur lengi verið til umræðu og fyrir fleiri vandræði en þau, sem hér hafa verið rakin. Stjórnendur hans gengu lengra en stjórnendur annarra banka í heimskulegum útlánum og þurftu raunar að fá peninga úr ríkissjóði til að komast hjá gjaldþroti.

Stjórnendur bankans hafa ekki tekið neitt mark á umræðunni. Þeir hafa verið svo fjarri raunveruleikanum, að þeir hafa haldið áfram að tapa peningum, sem þeim hefur verið trúað fyrir, og haldið áfram að láta bankann borga lífsstíl, sem þeim finnst vera sér við hæfi.

Sennilega hafa þeir haldið og halda enn, að afrekaskráin komi fólki úti í bæ ekki við. Sennilega hafa þeir haldið og halda enn, að þeir geti hagað sér nokkurn veginn eins og þeim sýnist. Sennilega hafa þeir haldið og halda enn, að þeir séu yfir þjóðfélagið hafnir.

Og sennilega er þetta allt rétt hjá þeim. Yfirlýsing bankaráðsins um “ónákvæmni” bendir til, að allt verði áfram í sömu skorðum, þegar moldviðrinu linnir.

Jónas Kristjánsson

DV