Ónýt yfirstétt

Greinar

Nýlega hrósaði ég Höskuldi Jónssyni forstjóra, sem er að skilja við ríkiseinokun áfengis og tóbaks eftir tveggja áratuga starf. Höskuldur er einn af þessum sjaldgæfu embættismönnum, sem hafa staðið sig í stykkinu, innan um endalausar raðir af ónytjungum, sem spilla fyrir þjóðinni.

Ef við lítum á yfirstétt landsins, eru heilir hópar ónýtir. Um dómara landsins má hafa langt mál, þar sem gerðir þeirra spanna frá geðveiki yfir í afturhald til fyrri alda. Almennt eru dómarar ekki í tengslum við þjóðfélagið og fjöldi þeirra gerir sér ekki heldur grein fyrir refsiákvæðum í landslögum.

Stjórnmálamenn eru eins og Akrahreppsmenn Bólu-Hjálmars flestir aumingjar eða illgjarnir, sem betur mega. Þeir reka hér helmingaskiptafélag, þar sem fyrirtæki í atvinnumiðlun kemst upp með að stýra landinu undir nafni Framsóknarflokks. Þjóðarleiðtogarnir eru bófar, sem ógna fólki í símtölum.

Embættismenn í ráðuneytum eru flestir undirmálsmenn, sem geta ekki einu sinni haldið röð og reglu á málum, sem er grundvallaratriði í embættisfærslu. Þeir svara ekki bréfum og þurfa í hverri umferð máls að fá send öll gögn málsins frá upphafi, af því að þeir kynna sér aldrei nein gögn.

Þingmenn eru kapítuli út af fyrir sig. Þeir, sem fylgja ríkisstjórninni að málum, gera ekkert annað en að ýta á réttan hnapp í atkvæðagreiðslum, meira að segja Pétur Blöndal, sem rífur kjaft milli þess sem hann ýtir rétt á hnappinn. Stjórnarandstaðan hefur flutzt út í fjölmiðlana.

Um gamalríka fólkið í landinu dugir að benda á olíuna. Þar var fyrir mistök flett ofan af einu samsærinu af mörgum í fáokun, sem einkennt hefur efnahagslífið um langan feril samstjórna Sjálfstæðisflokks og atvinnumiðlunar Framsóknar. Kolkrabbinn og smokkfiskurinn voru lengst af mara á fólki.

Nú eru komnir til skjalanna nýríkir menn, sem of snemmt er að flokka á ofangreindan hátt. Um suma vitum við, að þeir eru ribbaldar, sem hafa komizt áfram sem innherjar, hafa grætt fé sitt á vitneskju, sem öðrum er ekki aðgengileg. Aðrir eru duglegir og útsjónarsamir í alþjóðlegum stíl.

Í stórum dráttum býr þjóðin við yfirstétt, sem tröllríður landinu og skilur ekkert eftir sig í staðinn. Maður eins og Höskuldur Jónsson er undantekningin, sem sannar regluna.

DV