Ópera

Veitingar

Vélrænt og vanhugsað

Á mesta bláberjahausti í manna minnum hafa flestir bragðað góð, íslenzk bláber. Þeir, sem ekki hafa tínt sjálfir og þekkja enga, sem hafa tínt, hafa oft getað keypt þau í framsæknum verzlunum. Á hátíma þessarar einstæðu bláberjaveizlu bauð Óperan í Lækjargötu bandarísk bláber í eftirrétt, eins bragðlaus og þau hafa alltaf verið og vafalaust jafndýr í innkaupi og þau hafa alltaf verið.

Eitthvað vélrænt og vanhugsað er að baki framboðs Óperunnar á bandarískum og bragðlausum bláberjum, þegar nóg er til af íslenzkum alvöruberjum. Þar voru bláberin þáttur í fersku ávaxtasalati, sem er á fasta matseðlinum. Þar sem húsið verður að hafa þau daglega á boðstólum, er treyst á innflutninginn og ekki nennt að athuga, að betri bláber eru stundum til, meira að segja í borgarlandinu.

Svipuð vélræna og vanhugsun kemur fram í skeldýrahlaðborði, sem staðurinn fór nýlega að bjóða í hádeginu. Það byggðist, þegar ég sá það, á innfluttum dósakræklingi úr Limafirðinum. Hann var í báðum heitum réttum þess, súpunni og gratíninu, í síðara tilvikinu með rækjum, sem voru hitt einkennistákn hlaðborðsins.

Rækjur eru dýrar og viðkvæmar, enda nutu þær sín ekki, þar sem þær lágu langtímum saman í gratíni, sem haldið var heitu. Ekki heldur í réttinum, þar sem rækjurnar voru ein og ein á stangli í glæru hlaupi. Þær nutu sín tæpast sem skraut á tvílitu fiskihakki, er var formað eins og terta. Og allra sízt í eins konar risotto, sem hafði kólnað og einkenndist aðallega af þurrum kjötbitum.

Beztur var sítrónuleginn hörpufiskur, sem mátti teljast frambærilegur. Skeldýrahlaðborðinu er þar með að mestu lýst, ef við gleymum hrásalati, sósum og öðrum slíkum hliðaratriðum. Þetta borð kostaði 680 krónur fyrir utan kaffi, sem er ekki mikið, ef tekið er tillit til innkaupsverðs hráefna. En mig langar ekki til að kynnast því aftur. Er þó hér á landi ekki um að gresja auðugan garð slíkra hádegis-sjávarréttaborða.

Bæði gott og misgott

Betri reynslu, en eigi að síður misjafna, hef ég af annarri matreiðslu Óperunnar. Villisveppasúpa fastaseðilsins hafði að geyma þurrkaða sveppi og þeyttan rjóma. Grænmetissúpa, sem kölluð var að hætti Fönixbúa, var hveitisúpa með mauksoðnu grænmeti, aðallega spergli. Svokölluð silungasúpa hafði ekkert silungsbragð, en var hins vegar mild dill-súpa með þeyttum rjóma, stráðum dilli, ágæt sem slík. Súpunum fylgdu nokkrar tegundir af góðu brauði.

Kaldur sjávarréttadiskur fól í sér meyran hörpufisk, góðar rækjur, einn humar með falllegum klóm, hin óhugnanlega bleiku og svörtu steinbítshrogn frá Akranesi, krækling, eggjarauðu – og var frambærilegur matur. Í fersku grænmetissalati var aðallega ísberg, skreytt grænum olífum, hálfu eggi, gulrótarstrimlum, dósa-rauðrófu, tómati, papriku og kotasælu, borið fram með góðri laukídýfu, blandaðri olíu og ediki. Snigla-ragout var snarpheitt og gott, í för með linum sveppum og hæfilega lítið eldaðri púrru og papriku.

Pönnusteiktur hörpufiskur var aðalréttur, borinn fram með sveppum í estragon-sósu, of seigur. Gufusoðin smálúðuflök, sem sögð voru komin að landi að morgni og mælt var sérstaklega með, voru of þurr, en samt nokkurn veginn frambærileg, liggjandi ofan á bleikri sósu, ekki girnilegri, kallaðri hvítvínssósu, borin fram með léttsoðnu grænmeti. Staðlað grænmeti fylgdi fiskréttunum.

Fyrirmyndar nautastrimlar

Steiktir nautastrimlar með hvítlauk og steinselju voru afar góðir og bentu til, að hæfileikar leyndust í eldhúsinu. Þeir voru meyrir, bleikir, bragðmiklir og vel kryddaðir, bornir fram með eggaldini, sem er of sjaldgæft á íslenzkum veitingahúsum, léttsoðnum gulrótum, kartöflum og kjötsoði. Þetta var sannkallaður fyrirmyndarréttur.

Svartfuglsbringa var léttsteikt, svo sem sagt var á matseðlinum, í fylgd með bragðlítilli sósu, er kölluð var trönuberjasósa, svo og stöðluðu grænmeti, sem fylgdi kjötréttunum, gúrkum í tómatkrafti og tómötum á maís. Glóðarsteikt lambabuff átti að vera lítið steikt, en reyndist frekar grátt, en þó sæmilega meyrt, borið fram með hlutlausri sósu. Piparsteikin var meyr og góð, en lítið pipruð, alveg eins og sósan. Til að finna piparbragð varð að naga piparkornin í sósunni. Nautalundir voru bragðminni, en meyrar og rauðar, með bragðdaufri sósu, sem hét rjómasósa.

Ostakaka var mjög góð, dálítið stíf og súr, borin fram með kiwi, jarðarberjum og banana. Fersk jarðarber voru góð, borin fram með þeyttum rjóma. Kiwi-ís var frambærilegur, borinn fram með súkkulaðihúðuðum vínberjum. Ferska ávaxtasalatið fól í sér fallega, holaða melónu, fyllta melónukjöti, jarðarberjum, kiwi og hinum umræddu bláberjum frá Bandaríkjunum. Kaffi var sæmilegt, borið fram með After Eight konfekti.

Vín á hálfum flöskum

Einn bezti kostur Óperunnar er, að allt borðvín má fá á hálfum flöskum, svo að fólk er ekki skyldað til að drekka sig fullt. Þetta kemur sér til dæmis vel fyrir marga í hádegi og bætir auðvitað upp nýjan vínseðil, sem varð öllu lakari í haust en hinn fyrri hafði verið í sumar og sem sýnir þar að auki ekki lengur árganga vínsins.

Þjónusta var í nokkuð góðu lagi, að öðru leyti en því, að hún mundi ekki, hvor pantaði hvað, þótt aðeins væru tveir til borðs. Ekki var hægt að fá meira af vatni í glas, nema biðja um það.

Einna bezt er húsnæðið

Þá er ótalinn einn bezti kostur Óperunnar, sem felst í húsakynnunum sjálfum, annarri hæð hins gamla húss á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Þetta er Knudtzons-hús, neðri hæðin frá 1852, síðar nefnt Prófastshús. Matsala var í þessu húsi frá 1921, þegar stúdentaráð rak þar matsölu, Mensa Academia. Þess vegna er vel við hæfi, að aftur skuli vera komið veitingahús á þessu mikilvæga götuhorni.

Vonandi tekst skipulagssjúklingum Reykjavíkurborgar ekki að rífa húsið, því að þeir hafa þegar fengið meira en nóga útrás í Kvosinni fyrir menningar- og mannlífshatur sitt. Vonandi tekst þeim ekki heldur að gera það að Pótemkin-tjaldi fyrir glerkastala að baki.

Veitingasalurinn er hvítmálaður og hefur sjáanlegan múrstein í bindingsverki þverveggjar. Trégólfið gamla hefur fengið að halda sér. Húsgögnin eru svört og hvítt tau er í dúkum og þurrkum. Á borðum eru kerti á kvöldin og vandaður borðbúnaður. Pottablóm hæfa vel gluggunum og útsýni þeirra til umferðar gangandi fólks í neðsta hluta Bakarabrekku. Uppi á lofti, þar sem eru leðursófar og bar undir súð, eru pottablómin öllu laslegri.

Einar Logi spilar oft þægilega málsverðartónlist. Gaman er að málverkum Guðmundar Björgvinssonar af grúttimbruðu fólki með græn og blá andlit, sem reynir að teygja skemmtanalopann á dauðalegri krá. Sjálf Óperan getur hins vegar verið hin líflegasta, þegar mikið er þar af fólki. Þá verður hún eins og bistró. En stundum er þar líka fátt um mannskapinn og það fer staðnum ekki eins vel.

Skeldýra-hlaðborðið í hádeginu kostar 770 krónur með kaffi. Miðjuverð þriggja rétta kvöldverðar með kaffi er 1682 krónur.

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
430 Kaldur sjávarréttadiskur
480 Snigla-ragout í hvítlauk
480 Graflax í sinnepssósu með ristuðu brauði
340 Ferskt grænmetissalat
260 Rjómalöguð silungssúpa með dill-rjóma
220 Villisveppasúpa
810 Sítrónukryddaðir sjávarréttir
880 Soðinn lax með súrum gúrkum og sítrónusneið
720 Steiktur skötuseldur í gráðostssósu
710 Pönnusteiktur hörpufiskur með ferskum sveppum
690 Gufusoðin smálúðuflök í hvítvínssósu
780 Léttsteikt svartfuglsbringa á trönuberjasósu
960 Grísalundir í Dijon-portvínssósu
890 Glóðarsteikt lambabuff með jurtakryddi
1160 Piparsteik í viskísósu
980 Nauta- og grísalundir í rauðvíns- og sinnepssósu
1160 Nautalundir og smjörsteiktir sveppir á rjómasósu
470 Kiwi-ís með súkkulaðihjúpuðum vínberjum
450 Fersk jarðarber með þeyttum rjóma
340 Ferskt ávaxtasalat
360 Ostakaka með ýmsum tegundum af ávöxtum

DV