Rétt er að vara fólk strax við verðinu. Það kostar um 3.550 krónur að borða þríréttað í Óperu, fyrir utan drykkjarföng. Þetta er svipað og á allra dýrustu stöðum landsins. Fyrir þetta fé getur fólk lent í að þurfa að matreiða sjálft við borðið, ef það pantar sér steinasteik.
Ég hef haldið, að fólk fari út að borða til að láta stjana við sig, en ekki til að lenda sjálft í eldhúsverkum. Hins vegar gefur steinasteikin stefnuföstum matargestum tækifæri til að sannfærast um, að allt hráefnið sé ferskt, og fá nákvæmlega þann eldunartíma, sem þeir vilja.
En steinasteikin er fyrst og fremst aðferð til að auka fjör og samræður, til að efla andrúmsloftið. Enda er oft fjölmenni í Óperu og stemmningin góð á kvöldin .
Ópera er notalegur matstaður á efri hæð gamla hússins á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Marrandi trégólf, litlir gluggar, bitaloft og lítil lofthæð gefa staðnum rómantískt andrúmsloft, sem magnað er með ofhlöðnum og mildilega rustalegum kráarskreytingum, svo og títtnefndri steinasteik, sem er helzta sérgrein hússins.
Matseðillinn er feiknarlangur, telur sextán forrétti og yfir þrjátíu kjötrétti. Töluvert sjálfstraust þarf til að halda úti svona seðli, sem kemur auk þess hér og þar á óvart í framandlegum réttum og frumlegum. Vínlisti er einnig langur og býður margar góðar og traustar tegundir.
Þjónusta reyndist góð í Óperu, kunnáttusamleg og afslöppuð. Þjónninn var ekki í vafa um, hver hefði pantað hvað. Hann vissi líka heilmikið um tilurð réttanna.
Saxaðir sniglar moðvolgir, komu í svani úr vatnsdeigi, með fínskornu salati og eplabitum í rjómasósu, sæmilegur forréttur. Rjómalöguð og sérríbætt sveppasúpa var þykk hveitisúpa með miklu af sveppum, ekki merkileg.
Skemmtilegra var djúpsteikt Tempura japanskt, meyr og góður humar og grænmeti, með of miklum steikarhjúp, borið fram með sojasósu og sake-hrísgrjónavíni. Bezt var laxatartar stangaveiðimannsins, hrár og slitinn lax með eggjarauðu í skurn og söxuðu grænmeti með hóflegu magni af kapers, bragðgóð útgáfa af tartar.
Afar létt og gott sítrónukrap með barkarbitum var ánægjulegur formáli að steinasteik. Valin var svokölluð kjötfantasía, sem fól í sér svartfugl, naut, kálf, lamb, svín og kjúkling, svo og margvíslegt grænmeti, glansandi af ferskleika. Kjötið var allt gott og varð frábært með réttri steikingu, sem hver gestur kann væntanlega.
Villibráð er önnur sérgrein. Léttsteiktar súlubringur bragðgóðar voru í þunnum sneiðum rósrauðum, með brenndri og beizkri brennivínssósu, rifsberjum, brómberjum og einföldu Waldorf-salati í appelsínuberki.
Grillað heilagfiski var þurrt, hlaðið tveimur risastórum og ljúffengum humarhölum, borið fram með hvítlaukssmjöri, bakaðri kartöflu og maísstöngli. Dijon-nautasteik kom ekki hrásteikt, heldur miðlungi steikt, ágætlega meyr, en of mikið pipruð, í sterkri koníakssósu, með bakaðri kartöflu og maísstöngli, meðlæti hússins.
Kaffiterta reyndist vera ágætur mokkabúðingur. Cup Opera bjó yfir margs konar ávaxtabitum og ískúlum. Pönnukaka var góð og þunn, með miklu af brómberja-, jarðarberja- og sítrónuís og sósu úr súkkulaðityggjói. Kaffi var gott og heitt súkkulaði var nánast unaðslegt.
Jónas Kristjánsson
DV