Ópera

Veitingar

Ekki veit ég hvers vegna hvítlauksristaður, frekar þurr, en ekki beinlínis seigur skelfiskur heitir Brak og brestir á matseðli Cafés Óperu. Þetta voru rækjur, hörpudiskur og kræklingur, sem bjargað var fyrir horn með ágætlega krydduðu og rjómuðu skelfisksoði. Undarlegir stælar af ýmsu tagi einkenna oft veitingahús, þar sem takmarkaður áhugi er á matreiðslu.

Salat Lyonnaise er skólabókaræfing, sem ætti að gefa möguleika, en hér var það einfalt jöklasalat með ristuðum brauðteningum, eggi og agnarögn af reyktu fleski, næsta ómerkur forréttur. Betri var rifinn hrálax með jöklasalati, eggjarauðu, rauðrófu og kapers, nákvæm og eðlileg stæling á buff tartar.

Ekki veit ég, hvers vegna steinasteik með humar og grófskornu grænmeti heitir Brim og boði á matseðlinum. Hins vegar veit ég, að gestir eiga auðvelt með að sigla í strand, þegar þeir hafa ekki einu sinni hliðardisk til að reyna að jafna steikartíma í tveggja tíma borðhaldi. Rétturinn ætti að heita Of og van í senn. Hráefnið er raunar meyrt og ferskt, en ókryddaður Galloway er bragðlaus.

Steinasteikin hefur árum saman hentað athafnafíklum, sem vilja heldur borga 2.890 krónur á steikina og 4.460 krónur á þríréttaða máltíð fyrir að fá að steikja undir þaki í miðborginni í stað þess að þurfa að grilla ókeypis í roki og rigningu úti í garði heima hjá sér. En hafa verður í huga, að verðlagið er nálægt Íslandsmeti.

Fiskur er ekki í náðinni í eldhúsinu. Þunnar sneiðar af grillaðri stórlúðu voru einstaklega þurrar, greinilega frystar, bornar fram með miklu af rækjum, grænmeti á teini, bakaðri kartöflu og ágætri hvítlaukssósu. Grimmdarsteiking var líka á andakjöti í sterkri og svartri sósu, sem hét glóaldinsósa, en meðfylgjandi grænmeti var hóflega steikt.

Eftirréttir voru ekki merkilegir. Þurr terta með ostarönd var kölluð bakaður ostamarmari, borin fram með tvenns konar súkkulaðisósu, ljósri og dökkri. Epli var hóflega djúpsteikt með óvenjulega þéttum ávaxtaís og mangósósu. Minnissstæðast, frumlegast og bezt var súkkulaðihúðað spaghetti, sem dempaði sætubragðið af sósunni.

Á löngum og hægum hnignunartíma matreiðslunnar hefur Ópera jafnan verið vel sótt. Krárstemning er oftast góð í þægilegum tréstólum við glansandi viðarlíki í borðum. Umgerðin er notaleg á efri hæð gamla hússins á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Lítillega ofhlaðnar rustaskreytingar hæfa gömlu húsi, marrandi trégólfi, bitalofti og rómantískum smágluggum með fortíðarútsýni til Bernhöftstorfunnar.

Jónas Kristjánsson

DV