Ópera, Hansen, Amigos, Asía

Veitingar

Gert út á ferðamenn
Matreiðslan í Café Óperu hefur batnað, en verðið hefur hækkað meira. Fyrir verðlag Hótel Holts fær maður mat í gæðaflokki Hótel Borgar. Þótt mér finnist sjálfum hálfhrá stórlúða ágætis matur, er ég ekki viss um, að fólk, sem ekki hefur sérpantað slíka matreiðslu, sætti sig almennt við niðurstöðuna. Þar á ofan er staðurinn groddalega innréttaður með berum borðplötum og daufri loftræstingu, sem losar ekki tóbaksfnykinn. Mér sýnist staðurinn vera ætlaður ferðamönnum, sem vitað er, að koma aldrei aftur. Hörpuskel með hvítu svartrótarmauki var eigi að síður ágætis matur.
(Café Ópera, Lækjargötu 2, sími 552 9499)

Groddalega eldað
Ég mundi ekki sakna A. Hansen í Hafnarfirði, ef hann væri lagður niður. Samt er húsnæðið að mörgu leyti notalegt, enda með því elzta, sem þekkist hér á landi. Þjónustan var af því tagi, sem spurði, hvort ég “ætlaði að skrifa um staðinn”. Matreiðslan reyndist tæpast vera frambærileg. Þið verðið þó að vara ykkur á fiskinum, sem kemur upp úr frysti og er settur í örbylgjuofn. Beðið var um léttsteikt lambakjöt, en það kom grásteikt á borð með ofelduðum sveppum og ógeðfelldri hveitisósu án gráðostsbragðsins, sem boðað hafði verið. Tvíreykt sauðafillet með daufri piparrótarsósu var hins vegar ágætur matur.
(A. Hansen, Vesturgötu 4, Hafnarfirði, sími 565 1130)

Endalausar tortillur
Amigos er ódýr matstaður með yfirbragði bjórkrár, en eigi að síður með góðri loftræstingu á reyklausa svæðinu og þjónustu á plani hefðbundinna veitingahúsa. Þetta er fjölskylduvænn Tex-Mex, sem þýðir, að hér er Texas-matreiðsla, sem byggir á tortillu-grunni frá Mexikó. Salöt voru að mestu úr gömlu og brúnu jöklasalati. Úthafsrækjan var vafin beikoni, svo að úr varð hreint beikonbragð. Hins vegar var gaman að Santa Fe kjúklingi upp úr lime-kryddlegi með góðri baunakássu og léttelduðu grænmeti. Skynsamlegast er hér að velja úr endalausum útgáfum af tortillum.
(Amigos, Tryggvag. 8, s. 511 1333)

Fundinn fókus
Eins árs hringferð minni um fimmtíu veitingahús höfuðborgarsvæðisins lauk á miðvikudaginn á Asíu, þar sem ánægjulegt var að finna, að staðurinn hefur fundið sér kínverskan fókus í stað þess að reyna að spanna alla Asíu. Matreiðslan hefur batnað töluvert, þótt hún jafnist ekki á við Kínahúsið, auk þess sem verðið hefur hækkað hlutfallslega. Svínakjöt á pinnum var gott sem fyrr, en lamb í lauksósu var ekki eins meyrt og lofað var á matseðli.
(Asía, Laugav. 10, sími 562 6210)

Jónas Kristjánsson

DV