Opin lönd og lokuð.

Greinar

Við höfum daglega aðgang að upplýsingum um hryðjuverk á vegum stjórnarinnar í Suður-Afríku. Lögreglumenn ganga berserksgang í manndrápum og skjóta jafnvel börn og unglinga í bakið. Siðrænt gjaldþrot aðskilnaðarstefnunnar liggur í augum uppi um heim allan.

Við höfum líka daglegar upplýsingar um skipulega mismunun og mannréttindabrot af hálfu ríkisstjórnar Ísraels á hernumdu svæðunum vestan við ána Jórdan. Við getum, ef við kærum okkur um, kynnt okkur, hvernig arabar eru annars flokks borgarar í Ísrael.

Hvorki Ísrael né Suður-Afríka enn síður eru lýðræðisríki. Þetta eru ríki kúgunar og sumpart hryðjuverka, svartur blettur á samvizku hinna vestrænu ríkja, sem leynt eða ljóst hafa stutt þessi ríki gegn hinum minni máttar í þjóðfélaginu og í nágrenni þess.

Sum vestræn ríki eru raunar aðeins lýðræðisleg inn á við, en haga sér eins og hryðjuverkasamtök út á við. Illræmdar eru tundurduflalagnir stjórnar Bandaríkjanna í höfnum Nicaragua. Ennfremur beinn og óbeinn stuðningur hennar við uppreisnarmenn frá Somoza-tímanum.

Mitterrand Frakklandsforseti er kominn í dilk með Gaddafi Líbýuleiðtoga. Menn hans stunda hryðjuverk í erlendum ríkjum. Þegar þetta kemst upp, biðst Mitterrand ekki einu sinni afsökunar, en lætur ofsækja þá menn, sem grunaðir eru um að hafa lekið þessum upplýsingum.

Jafnvel þótt Frakkland og Bandaríkin væru talin til lýðræðisríkja, eru slík ríki ekki nema um 50 í heiminum, langflest í Vestur-Evrópu. Hin, sem ekki ástunda lýðræði, eru mun fleiri eða um 110 talsins. Lýðræði er því miður afar sjaldgæf munaðarvara á jörðinni.

Lýðræðisríkin eru þau, sem virða ákvæði stofnskrár Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og upplýsingafrelsi. Þessum samtökum er svo aftur á móti núorðið stjórnað með samblæstri ríkja, sem virða hvorki mannréttindi né upplýsingafrelsi almennings.

Í atkvæðagreiðslum standa saman fulltrúar þriggja afla, Sovétblakkarinnar, arabaríkjanna og einræðisherra þriðja heimsins. Meðal þess, sem þetta ófélega lið hefur á heilanum, eru Ísrael og Suður-Afríka. Ályktunum gegn þeim linnir ekki, en önnur ríki eru látin í friði.

Í Sovétríkjunum hefur allur þorri fólks engin borgaraleg réttindi. Þau eru öll í höndum fámennrar yfirstéttar, sem til dæmis beitir mannréttindasinna margvíslegu kvalræði og fremur í Afganistan villimannlegustu hryðjuverk, sem kunn eru um þessar mundir.

Í heild má segja um Sovétblökkina, arabaríkin og þriðja heiminn, að stjórnarfar þar er verra en í Suður-Afríku og Ísrael. Við höfum hins vegar yfirleitt ekki eins nákvæmar upplýsingar um kúgun og hryðjuverk slíkra stjórnvalda, af því að þetta eru meira eða minna lokuð lönd.

Ísrael og Suður-Afríka hafa það umfram slík ríki, að þau eru opin. Við getum fengið fréttir af ástandi mála og tekið afstöðu til þeirra. Við fáum hins vegar stopular fréttir af æðinu í Afganistan og aðstæðum eða líðan mannréttindasinna í Sovétríkjunum.

Við megum ekki verða svo upptekin af óbeit á framferði ríkisstjórna í opnum ríkjum, að við gleymum framferði verri ríkisstjórna í lokuðum ríkjum. Og við skulum muna, að hornsteinn mannréttinda er upplýsingafrelsið. Baráttan fyrir því er mikilvægasta lóðið á vogarskálina.

Jónas Kristjánsson.

DV