Opinber verndun kláms

Greinar

Fyrir svo sem tveimur áratugum komst sú kenning á kreik, að klám væri fremur hagstætt, af því að það héldi órunum á ímyndunarstigi og minnkaði líkur á, að þeir brytust út á öfgafullan hátt og sköðuðu annað fólk. Þetta var eins og hver önnur kenning, sem reis og hneig.

Dönsk stjórnvöld tóku kenninguna fremur alvarlega fyrir tveimur áratugum og fóru að leyfa klámviðskipti af ýmsu tagi. Miðbær Kaupmannahafnar fylltist af klámbúðum, þar sem seldar voru bækur og tímarit, hljóðsnældur og myndbönd, svo og kynóratól af ýmsu tagi.

Niðurstaðan var ekki sú, sem ætluð var. Kynferðisglæpum fjölgaði, þegar frá leið. Miðbær Kaupmannahafnar varð fremur fráhrindandi á tímabili. Síðan hurfu Danir frá kenningunni og ástandið hefur aftur færzt í það horf, sem var fyrir misheppnuðu byltinguna.

Svo virðist sem síðari tíma frumvarpshöfundar á Íslandi hafi verið við nám í Kaupmannahöfn við upphaf klámtímans, flutzt síðan heim til Íslands og frosið hér inni með úrelta kenningu um gagnsemi kláms. Þessa sér stað í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um barnaklám.

Frumvarpið greinir á milli grófs barnakláms, sem eigi að vera ólöglegt, og löglegs barnakláms, sem sé ekki eins gróft. Dómsmálaráðuneytið fylgist lítið með því, sem er að gerast og hyggst leggja frumvarpið fram að nýju í haust, þrátt fyrir daufar viðtökur í vor.

Í ruglingslegri greinargerð frumvarpsins segir: “Því hefur verið haldið fram, að í einstaka tilvikum geti efni með barnaklámi, sem kynferðislega misþroska menn hafa í vörzlu sinni, hugsanlega að einhverju leyti komið í veg fyrir kynferðisafbrot gagnvart börnum.”

Þetta er lítt sannfærandi texti, sem vísar í óskilgreindar fullyrðingar um einstaka tilvik og einhvers konar hugsanlegar hömlur, sem felist í klámi. Sem röksemdafærsla fyrir ríkisstjórnarfrumvarpi um aukið klám er hún ónothæf með öllu og raunar forkastanleg.

Við eigum við allt önnur vandamál að stríða á þessu sviði en skort á klámi. Augljósi vandinn er, að dómstólar í landinu taka ekki mark á forskriftum laga um þyngd dóma við kynferðisglæpum. Niðurstöður þeirra hafa oftast verið nálægt vægari enda lagarammans.

Refsingar við kynferðisglæpum eiga að vera þungar, þótt vitað sé, að þær hafi sjaldan mannbætandi áhrif. Tilgangur refsinga er í rauninni allt annar, eins og sést af orðsins hljóðan. Þær hafa líka þann kost að taka hættulegt fólk úr almennri umferð um tíma.

Mikilvægt er, að ríkisstjórnir sem flestra landa taki saman höndum um gagnkvæmt upplýsingaflæði um framleiðslu og sölu barnakláms og annars afbrigðilegs kláms, svo að unnt sé að elta glæpamennina uppi. Þetta má gera á vegum lögreglustofnunarinnar Interpol.

Fjölþjóðlegt samstarf er orðið mikilvægara núna en áður, af því að dreifing kláms er að færast í stafrænt form. Tæki á borð við símann og netið eru notuð til að komast framhjá landamærum. Íslenzk lög ná ekki til þeirra, sem gera barnaklám aðgengilegt á netinu.

Hins vegar er hægt að rekja, hvaðan klámið á netinu kemur og hvetja viðkomandi yfirvöld til að grípa í taumana. Þannig er unnt að hrekja klámið úr einu víginu í annað og einangra þau ríki, sem halda verndarhendi yfir því. Þessar varnir eru enn ekki hafnar.

Gott væri, að dómsmálaráðuneytið íslenzka hætti að vernda klám og færi í staðinn að hafa frumkvæði að alþjóðlegu samstarfi um verndun fólks gegn klámi.

Jónas Kristjánsson

DV