Opinbera trúarstofnunin

Fjölmiðlun

Bar aldrei virðingu fyrir Mogganum í gamla daga. Vissi of mikið um fréttir, sem blaðið birti ekki af pólitískum og öðrum ástæðum. Fyrirleit þá, sem sníktu sér gott veður þar á bæ. Var hissa á vinstri pólitíkusum, sem álitu heimsókn á miðilsfundi Styrmis Gunnarssonar vera þrep á framabraut sinni. Mogginn var að mínu viti ekki fjölmiðill, heldur opinber stofnun með ívafi trúar. Þar voru ritstjórarnir æðstu prestar. Þótt ég skrifaði yfir tuttugu bækur, voru þær aldrei nefndar í Mogganum. Því að ég átti að koma skríðandi til Styrmis eða Matthíasar, sem ég gerði ekki. Ég skil ekki hátt álit manna á Mogganum. (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður)