Horfur eru á, að Reykjavíkurborg, sem hefur Bæjarútgerðina á herðunum, axli líka Ísbjörninn í örvæntingarfullri tilraun til að koma sjávarútvegi sínum í skynsamlegan rekstur. Um þetta fjallar umdeild skýrsla, sem borgarstjóri hefur látið gera og fjölmiðlar fjallað um.
Ljóst er, að Bæjarútgerðin verður stærri aðilinn, ef fyrirtækin verða sameinuð. Líklegt er, að hlutur borgarinnar verði nálægt 60% og Ísbjarnarmanna 40%, ef farið verður eftir mati skýrslunnar á eignum fyrirtækjanna. Og allir vita, að meirihlutinn ræður og ber ábyrgð.
Til viðbótar kemur fram í skýrslunni, að auka þarf eigið fé hins sameinaða fyrirtækis um 180-250 milljónir króna. Hluti þess fjár gæti komið úr sölu eigna Bæjarútgerðarinnar við Meistaravelli og Ísbjarnarins á Seltjarnarnesi, en hvorugar eru verðmiklar né auðseljanlegar.
Búast má við, að mikill hluti aukningarinnar muni koma frá borginni. Ótrúlegt er, að einhverjir aðilar úti í bæ vilji eða geti lagt fram fé á móti. Allar líkur benda til, að eignarhluti borgarinnar í sameinuðu fyrirtæki verði fremur meiri en minni en ofangreind 60%.
Með sameiningu væri því verið að reyna að bjarga opinberum rekstri með því að auka hann. Barnalegt er að tala um, að borgin sé með þessu að losa sig við Bæjarútgerðina. Hún er þvert á móti að stækka hana upp í það, sem hún var fyrir nokkrum árum, þegar togararnir voru sjö.
Þrír togarar Ísbjarnarins verða sameinaðir fjórum togurum Bæjarútgerðarinnar, ef af sameiningu verður. Jafnframt nær Bæjarútgerðin tökum á mjög fullkomnu frystihúsi Ísbjarnarins úti í Örfirisey. Sú aðstaða er miklu betri en hin, sem Bæjarútgerðin hefur á Granda.
Ein af ástæðum þess, að Ísbirninum hefur gengið illa, þrátt fyrir fína húsið, er hraðminnkuð vinnsla á síðustu árum. Aðstaðan nýtist ekki nógu vel. Með því að sameina meginhluta vinnslunnar þar má búast við, að reksturinn verði töluvert aðgengilegri en nú.
Bæði fyrirtækin ramba nú á barmi hruns. Ísbjörninn hefur notið skjóls í Landsbankanum og hjá Olíuverzluninni og skuldar nettó um eða yfir hálfan milljarð króna. Skuldirnar hraðvaxa ár frá ári. Á fyrstu sex mánuðum ársins nam tapið um 50 milljónum. Lokin eru í augsýn.
Svipað má segja um Bæjarútgerðina, sem skuldar nettó meira en hálfan milljarð króna. Tapið á fyrri hluta þessa árs er hið sama og hjá Ísbirninum. Munurinn er, að hún hefur getað sótt peninga í borgarsjóð, 60 milljónir króna í fyrra og sennilega 40 milljónir á þessu ári.
Niðurstaðan virðist verða hin sama og venja er við slíkar aðstæður. Einkafyrirtækin lognast út af og opinberu fyrirtækjunum er bjargað með almannafé. Sjávarútvegurinn í Reykjavík færist í hendur hins opinbera eins og gerzt hefur í bæjarfélögum úti á landi.
Ekki er víst, að hið opinbera sé heppilegasti aðilinn til að koma hinum sameinaða rekstri í rétt horf. Ekki er langt síðan togarinn Snorri Sturluson, eign Bæjarútgerðarinnar, kom þrisvar í röð með ónýtan afla að landi. Slíkt er ekki aðeins dýrt, heldur einnig merki um óstjórn.
Skýrslan hjá borgarstjóra segir, að ná megi hagnaði með því að sameina tvo aðframkomna sjúklinga. Slíkt virðist ótrúlegt, þótt rökin séu út af fyrir sig í lagi á pappírnum. Altjend er þetta hið eina, er kemur til greina sem síðasta tilraun, því að uppgjöfin blasir við.
Jónas Kristjánsson.
DV