Opinn skóli er framtíðin.

Greinar

Ragnar Arnalds hefur lagt fram á Alþingi tillögu um opinn háskóla í svipuðum stíl og margoft hefur verið hvatt til hér í blaðinu og forverum þess í um það bil áratug. Slíkur skóli byggist á námi í heimahúsum með aðstoð útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvutækni.

Tillögurnar í DV hafa að því leyti verið víðtækari, að þær hafa fjallað um opið framhaldsnám, ekki aðeins háskólanám. Tillaga Ragnars gerir þó ráð fyrir þeim möguleika, með því að opni háskólinn sé öllum opinn án tillits til fyrri menntunar.

Opinn skóli er svo sjálfsagður og eðlilegur, að furðulegt má telja, hversu litlar undirtektir hann hefur fengið meðal skólamanna. Fálæti þeirra segir raunar allt, sem segja þarf, um staðnað ástand skólamála á Íslandi.

Í Bretlandi hefur opinn háskóli verið rekinn með góðum árangri í hálfan annan áratug. Þar hefur fengizt reynsla, sem getur komið okkur að gagni. Þar er líka á boðstólum kennsluefni, sem tiltölulega ódýrt er að laga að íslenzkum aðstæðum.

Opnir skólar, er byggja á heimanámi, bæta aðstöðu nemenda, sem búa fjarri menntastofnunum. Tækni nútímans er notuð til að flytja námsefnið beint í fang þeirra. Ekki er hægt að hugsa sér öflugri jöfnun á misrétti milli Reykjavíkursvæðisins og dreifbýlisins.

Á venjulegu framhaldsskólastigi má nota þessa tækni til að létta fagþekkingarkröfum af kennurum heima í héraði. Þeir geta einbeitt sér að leiðbeiningum og aðstoð, en geta fengið sjálfa fræðsluna senda að sunnan, í útvarpi og sjónvarpi, á myndböndum og disklingum.

Þessi sama tækni getur stuðlað að velgengni og útþenslu bezt heppnaða geira skólakerfisins, öldungadeildunum. Hún auðveldar fólki að stunda nám utan venjulegs vinnutíma og að haga námshraða eftir aðstæðum. Hún opnar skólakerfið upp á gátt.

Gott er, að opni háskólinn hafi heimavist, þar sem nemendur geta komið til stuttrar dvalar. Þar geta þeir áttað sig betur á gengi sínu í náminu. Þar geta þeir farið í verklegar æfingar eða stundað aðra þá námsþætti, sem tæknin ræður síður við.

Slíkri heimavist mætti koma upp á Akureyri í stað hinnar vitlausu hugmyndar að setja þar upp háskóladeildir. Þannig gæti staður utan Reykjavíkursvæðisins orðið eins konar miðstöð opna framhaldsskólans.

Margt námsefni, sérstaklega það, sem dýrt er í vinnslu. má kaupa hjá opna háskólanum í Bretlandi og setja í það íslenzkar þýðingar. Sumt af þessu efni þarf ekki einu sinni að þýða, til dæmis tungumálakennslu.

Til viðbótar er unnt að búa til þætti með færustu kennurum í landinu og nýta þannig hæfni þeirra langt út fyrir veggi skólastofunnar. Slíkt hlýtur að vera betra en kennsla áhugalausra og lítt fróðra kennara, þótt persónulega sambandið sé minna.

Með samtvinnun erlendra og innlendra kennsluflokka, samtvinnun útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölva, heimanáms og heimavistar, framhaldsnáms og öldungadeilda, er unnt að veita nýju lífi í staðnað skólakerfi landsins og koma upp kerfi símenntunar.

Aldrei hefur heyrzt nein gagnrýni á þessar hugmyndir. Skólamenn landsins hafa þagað þunnu hljóði, enda er vafasamt, að þeir botni nokkuð í nútímatækni. En tillaga Ragnars verður vonandi til að vekja þá og þjóðina af værum skólamálablundi.

Jónas Kristjánsson

DV