Óráðleg aðför að sjóði

Greinar

Farið hefur verið óþarflega geyst í að efla Lánasjóð námsmanna á undanförnum árum. Bakslagið hefur komið fram núna, þegar nýr menntamálaráðherra heggur að rótum lánakerfisins. Hann kann að komast upp með það, enda er víða grunnt á hatri í garð námsmanna.

Erfitt hefur reynzt að framkvæma sjóðslögin frá 1982, þar sem gert var ráð fyrir, að sjóðurinn lánaði námsfólki alla svonefnda umframfjárþörf þess. Námsfólki hefur fjölgað svo ört, að lánakerfi þess er orðið að jafnþungum bagga á ríkissjóði og húsnæðislánakerfið er.

Einfaldast hefði verið að fresta fullri framkvæmd laganna, unz meiri reynsla væri komin á endurgreiðslukerfið. Lögin gerðu ráð fyrir, að 85-90% lánanna skiluðu sér til baka. Margt bendir hins vegar til, að sumir greiði ekki nema helming lánanna til baka.

Reiknað hefur verið út, að lántaki, sem hefur stundað nám í fimm ár og hefur á bakinu einnar milljónar króna skuld við sjóðinn, þurfi að hafa 55 þúsund króna mánaðartekjur til að greiða skuldina að fullu. Sumir háskólamenn hafa ekki nema hálfar þessar mánaðartekjur.

Hingað til hefur kerfið sem slíkt ekki verið umdeilt. Pólitískt samkomulag hefur verið um, að námslán séu verðtryggð og vaxtalaus og endurgreiðslur fari ekki upp fyrir 3,75% af tekjum á 40 endurgreiðsluárum. Nú stendur til að kollvarpa þessu kerfi laganna frá 1982.

Sverrir Hermannsson hyggst leggja fram frumvarp til laga um, að námsmenn greiði rúm 3% í vexti og kostnað ofan á verðtryggingu, endurgreiði lánin á 30 árum og njóti ekki þaks á endurgreiðsluhlutfalli. Þetta er kúvending, sem á eftir að hafa mikil áhrif.

Vafalaust mun kerfi Sverris fæla efnalítið fólk frá námi. Vera má, að slíkt sé í samræmi við nýja hugmyndafræði í Sjálfstæðiflokknum. Ef svo er, þá hefur margt breyzt frá því fyrir fjórum árum, er flokkurinn hafði frumkvæði að því kerfi, sem nú er verið að rífa.

Í leiðinni kýlir Sverrir í kaf Vöku, félag sjálfstæðisflokksinnaðra stúdenta. Það félag var eftir langa eyðimerkurgöngu komið í meirihlutasamstarf í stúdentaráði. Það samstarf hefur nú rofnað og Vökumenn sjá fram á langvinna eyðumerkurgöngu á næstu árum.

Ekki bætir úr skák Vöku, að Sverrir fékk fulltrúa félagsins til að draga til baka úrsögn sína úr stjórn Lánasjóðs námsmanna og kyssa á vönd ráðherrans. Það verður ekki til að auka veg og vinsældir Vöku meðal námsmanna í náinni framtíð.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma, sem Sverrir vegur að Vökumönnum. Í fyrra skiptið spillti hann fullveldishátíðinni 1. desember, sem Vökumenn höfðu undirbúið, með því að halda hina snobbuðu móðurmálshátíð í Þjóðleikhúsinu nákvæmlega á sama tíma.

Fylgið, sem Sverrir skefur af Sjálfstæðisflokknum meðal námsmanna, kann hann að vinna upp úti í bæ, þar sem óbeit og jafnvel hatur á námsmönnum er landlægt. Slík viðhorf hafa blómstrað við, að námsmenn hafa farið betur út úr kreppunni en margir aðrir.

Við þessar aðstæður verður að vona, að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni hafi vit fyrir mönnum, svo að Lánasjóður námsmanna geti starfað áfram á óbreyttum grunni laganna frá 1982 – á ódýrari hátt en verið hefur að undanförnu, en bylting Sverris verði hafnað.

Að sinni er þægilegt að lemja á óvinsælum lánasjóði. En hættulegt og óráðlegt, þegar frá líður.Jónas Kristjánsson

DV